Skoðun

Staða ábyrgðarmanna – sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð

Árni Helgason og Þórir Skarphéðinsson skrifar
Þrátt fyrir að ýmislegt hafi áunnist í að leysa úr skuldavanda einstaklinga og heimila að undanförnu er ljóst að enn er mörgum málum ólokið og fjöldi nýrra mála er settur í lögfræðiinnheimtu á degi hverjum. Samtímis eru gjarnan hafnar innheimtuaðgerðir gagnvart ábyrgðarmönnum á viðkomandi láni, þ.e. þeim sem ýmist veittu sjálfskuldarábyrgð eða lánsveð í eign sinni til tryggingar láninu.

Greiðslumat skilyrðiUm slíkar skuldbindingar ábyrgðarmanna gilda þó ákveðnar reglur sem vert er að kynna sér vel. Í gildi eru lög um ábyrgðarmenn sem kveða á um að lánastofnun skuli vinna greiðslumat á skuldara og kynna fyrir ábyrgðarmanni áður en ábyrgðarmaðurinn skrifar undir. Vanræki lánveitandi að sinna þessum skyldum þýðir það að ábyrgðin eða lánsveðið er að öllum líkindum ólögmætt.

Lögin tóku gildi vorið 2009 en fram að þeim tíma og allt aftur til ársins 1998 var í gildi samkomulag um sambærilegar verklagsreglur við gerð ábyrgða og veðleyfa. Hið sama átti við þar, þ.e. lánastofnunum bar að vinna greiðslumat af skuldara og kynna ábyrgðarmanni með þeirri undantekningu að ef lánsfjárhæðin var ein milljón króna eða minna gat ábyrgðarmaðurinn skriflega undanþegið sig þeim rétti að vera kynnt greiðslumat skuldara.

Ábyrgðir felldar úr gildiEf lánveitandinn vanrækti að sinna skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu er ábyrgðin eða lánsveðið ólögmætt. Þetta hefur margoft komið fram í dómum og ákvörðunum úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sem hefur mál sem þessi til umfjöllunar. Það ber þó að hafa í huga að lífeyrissjóðir landsins voru ekki aðilar að samkomulaginu og það tók eingöngu til ábyrgða sem einstaklingar gengu í fyrir einstaklinga. Þar af leiðandi falla t.d. ábyrgðir á rekstri einkahlutafélaga utan við samkomulagið. Lögin um ábyrgðarmenn gera hins vegar ekki slíka undanþágu, þau taka almennt til ábyrgða sem einstaklingar takast á hendur og undanskilja ekki tilteknar lánastofnanir eða ákveðnar tegundir ábyrgða.

Sækja verður réttinnFjölmörg dæmi eru um að lánastofnanir hafi ekki fylgt ofangreindum reglum og að ábyrgðir hafi verið felldar úr gildi í kjölfarið. Þeir sem hafa gengist í ábyrgð fyrir skuld geta og eiga að kanna stöðu sína að þessu leyti. Hver og einn verður að sækja þennan rétt fyrir sig, þar sem lánveitendur skoða þetta ekki að eigin frumkvæði. Þá er þetta ekki eitt af þeim atriðum sem dómarar kanna af sjálfsdáðum ef málum sem varða ábyrgð er stefnt inn. Það getur því margborgað sig fyrir ábyrgðarmenn að skoða stöðu sína og kanna lögmæti ábyrgða.




Skoðun

Sjá meira


×