Viðskipti innlent

JP Morgan fjárfestir í íslenska vatninu

Jón Ólafsson segir fjárfestingu í átöppunarverksmiðju þeirra feðga álíka mikla og í kísilverksmiðju. Á myndinni sýna þeir Jón og Kristján Össuri Skarphéðinssyni, þá iðnaðarráðherra, átöppunarverksmiðjuna þegar hún var ræst í september 2008. Fréttablaðið/Anton
Jón Ólafsson segir fjárfestingu í átöppunarverksmiðju þeirra feðga álíka mikla og í kísilverksmiðju. Á myndinni sýna þeir Jón og Kristján Össuri Skarphéðinssyni, þá iðnaðarráðherra, átöppunarverksmiðjuna þegar hún var ræst í september 2008. Fréttablaðið/Anton
„Það er langt frá því að fyrirtækið standi illa,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings. Fyrirtækið framleiðir átappað flöskuvatn undir merkjum Icelandic Glacial við Þorlákshöfn. Fyrirtækið hefur lokið við að auka hlutafé fyrirtækisins um fjörutíu milljónir dala, jafnvirði 4,7 milljarða íslenskra króna. Tæp sjötíu prósent af hlutafénu, 28 milljónir dala, um 3,3 milljarðar króna, fólst í breytingu á skuldum í hlutafé. Afgangurinn var nýtt hlutafé.

Við hlutafjáraukninguna fór eignarhluti bandaríska drykkjavörurisans Anheurser-Busch InBev úr nítján prósentum í 23,3. Nýir hluthafar bættust við, bandaríski fjárfestingarbankinn JP Morgan auk tveggja kunningja Jóns, suður-afríski fjárfestirinn Dennis Raeburn og gríski skipakóngurinn Eiles Mavroleon. Eignarhluti Jón og Kristjáns sonar hans fer hins vegar úr 73 prósentum í 55 prósent.

Jón bendir á að heildarfjárfestingin nemi nú þrettán milljörðum króna, sem er álíka fjárhæð og hafði verið tryggð fyrir fyrsta áfanga kísilverksmiðju í Helguvík árið 2008.

Ársreikningur Iceland Water Holdings liggur ekki fyrir. Félagið tapaði 12,5 milljónum dala árið 2009, þar af voru 10,3 milljónir dala, jafnvirði 1,2 milljarða, beint rekstrartap. Skuldir námu þá tæpum 67 milljónum dala, tæpum 7,9 milljörðum króna. Jón segir hlutafjáraukninguna nú og aukna sölu á heimsvísu bæta stöðu fyrirtækisins verulega, skuldir séu komnar niður í tuttugu milljónir dala.

Jón segir söluna aukast jafnt og þétt í samræmi við aukið landnám. Salan jókst um 86 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins. Vöxturinn hefur verið mestur í Kanada en þar jókst salan um 330 prósent frá sama tíma í hittifyrra. Þá er vatnið jafnframt til sölu í Kína og Rússlandi. „Áttatíu prósent sölunnar eru í Bandaríkjunum. Við stefnum á að þegar fram líði stundir verði salan jafn mikil í Bandaríkjunum og í Kína,“ segir Jón en í undirbúningi er að opna skrifstofu í Hong Kong á næstunni.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×