Innlent

Mikið lán að ekki fór verr á Landspítalanum

Borgarspítalinn. Mynd úr safni.
Borgarspítalinn. Mynd úr safni.
Læknanemi var hætt kominn á Landsspítalanum í Fossvogi í dag þegar hann féll niður lyftugöng. Litlu munaði að hann félli 10 metra niður lyftugöngin, en honum tókst að grípa í víra sem héngu í göngunum og slapp með brunasár og skrámur. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Hörður Ólafsson slysasérfræðingur segir lyfturnar í húsinu mjög komnar til ára sinna. Áður hafi komið fyrir að þær stoppi milli hæða en þá án þess að menn lendi í lífshættu í kjölfarið. „Það var meira að segja ein lyftan á Landsspítalanum fræg fyrir að falla niður nokkra sentimetra ef of margir tróðu sér í hana. Það olli oft nokkurri skelfingu," rifjar Hörður upp. Hann segir fólk á spítalanum uggandi eftir atburði dagsins.

Vilhjálmur Ólafsson umsjónarmaður Landspítalans segir þegar hafa verið gert við lyftuna. „Það var bara skynjari á einni hæðinni, sem lætur lyftuna stoppa á réttum stöðum, sem var farinn. Svona lagað skeður oft með lyftur, en nú er búið að skipta um hann, " sagði Vilhjálmur og kveður lyfturnar í húsinu allar í fínu standi. Vinnueftirlitið kom á staðinn í dag og tók út lyftuna. Hún var í góðu lagi.

Vilhjálmur segir að svona tilvik hafi komið upp áður. Þá fari menn venjulega upp í lyftuturninn og slaki lyftunni handvirkt niður þar til hún er komin á réttan stað. „Það átti enginn að fara út úr lyftunni fyrr en búið var að slaka henni niður. Það var feillinn," sagði Vilhjálmur. „Menn voru of fljótir á sér. Aðstoðin var komin og þá átti bara að bíða."

Mikil mildi var að atvikið endaði ekki verr í dag. Hefði læknaneminn ekki í snarræði sínu gripið í vírana hefði hann hrapað niður göngin og lent þar á gormum mun neðar. „Það er bara alveg sérstakt að ekki fór verr," segir Vilhjálmur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×