Innlent

„Gaman að heyra að Elvis sé orðinn íslenskur“

Boði Logason skrifar
„Hvað ertu að segja, ég verð að skoða þetta eitthvað betur," segir Jósef Ólason, stofnandi aðdáendaklúbbs Elvis Presley á Íslandi. Mannanafnanefnd hefur nú samþykkt nafnið Elvis, en úrskurður þess efnis var birtur á vef réttarheimildar 21. janúar síðastliðinn.

Á Facebook síðu Jósefs segir að hann sé besta Elvis eftirherma landsins og hafi „söngrödd engils og hreyfingar meistarans."

Aðspurður segist hann ætla að ræða við eiginkonu sína um að fá að breyta nafninu sínu í Jósef Elvis Aron Ólason, úr því að mannanafnanefnd hefur samþykkt nafnið sem íslenskt.

„Að sjálfsögðu, það eru margir sem hafa tekið þetta nafn úti í útlöndum en það er gaman að heyra að Elvis sé orðinn íslenskur. Ég ætla að hugsa þetta betur og ræða við konuna mína um þetta," segir Jósef.

Hann hefur notað Elvis nafnið þegar hann auglýsir sig á Facebook og þegar hann kemur fram. „En ég hef ekki notað það þegar ég er ekki að skemmta. Nú verðum við að skoða það betur."

Hann segist hafa fylgst með Elvis frá átta ára aldri en þá sá hann rokkgoðsögnina fyrst í kanasjónvarpinu. „Ég gerði bara nákvæmlega eins og hann og er búinn að halda upp á hann síðan. Ég stofnaði svo klúbbinn árið 2000."

Hann segist ekki vera einn á bakvið klúbbinn. „Konan mín og tengdamamma eru allt í öllu í þessu og hafa styrkt mig mikið," segir hann.

Jósef skírði dóttur sína Lísu Maríu, en dóttir Elvisar heitir Lisa Marie. „Og dóttir mín fæddist 5. febrúar og dóttir hans 1. febrúar, það eru bara fjórir dagar á milli," segir hann að lokum.

Í meðfylgjandi myndskeiði sést Jósef „Elvis Aron" Ólason syngja lag eftir kónginn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×