Lífið

Flutti á móti straumnum frá Noregi til Íslands

Josefin segir sundlaugarnar, heitu pottana og kaffið vera meðal þess sem hún kann best að meta hér á landi. fréttablaðið/Vilhelm
Josefin segir sundlaugarnar, heitu pottana og kaffið vera meðal þess sem hún kann best að meta hér á landi. fréttablaðið/Vilhelm
Hin norska Josefin Winther er kolfallin fyrir Íslandi eftir ársdvöl hér. Hún spilar körfubolta með KR og hefur verið dugleg að fara í leikhús í borginni. Í kvöld heldur hún fyrstu tónleika sína á Íslandi.

„Mig langar að vera áfram á Íslandi, þannig að ég get ekki falið mig lengur,“ segir norska söngkonan Josefin Winther, sem heldur sína fyrstu tónleika á Íslandi á Hemma og Valda kl. 21 í kvöld. Josefin er þekktur tónlistarmaður í heimalandi sínu og hefur hlotið mikið lof fyrir nýjustu plötu sína, Raising Armies, sem kom út í vor.

Jafnvægi fólksflutninga á milli Íslands og Noregs hefur ekki verið mikið síðustu ár, en á meðan fjöldi Íslendinga í fyrirheitna landinu jókst um 60% ákvað Josefin að gera sitt til að rétta hlutfallið af. Hún kolféll fyrir landi og þjóð þegar hún kom til Íslands fyrir rétt rúmu ári, og framlengdi dvölina sem upphaflega átti að vera ein önn í skiptinámi.

„Mér finnst eitthvað magnað og skrítið við Ísland. Fólkið hérna er líka svo náttúrulegt og mun tilbúnara til að slaka á en fólkið í Bergen, þar sem ég bjó. Svo sérðu bara hversu mikið er að gerast hér í tónlist og alls konar list hérna, ég hef til dæmis aldrei farið jafn oft í leikhús á ævinni og síðan ég flutti til Reykjavíkur,“ segir Josefin sem talar afbragðsgóða íslensku eftir einungis ársdvöl.

„Ég reyndi strax að tala íslensku, það er svo mikilvægt að þora að reyna. Mér fannst líka hálfkjánalegt að eiga að tala ensku við Íslendinga þegar ég er frá Noregi.“ Josefin ætlaði upphaflega að taka sér frí frá tónlistinni á meðan hún væri á Íslandi, því í Noregi var dagskráin þéttskipuð tónleikum, upptökum og slíku. Þegar hún ílentist áttaði hún sig þó á að ekki dygði að vera endalaust í felum. Hún flutti því inn hljómsveitina sína í vikunni og byrjaði að æfa og taka upp. Fjarsambandið við hljómsveitina mun halda eitthvað áfram, því Josefin hefur fullan hug á að dvelja áfram á Íslandi. „Strákarnir heyra að þegar ég er hér sem ég mjög góð lög. Á meðan ég held áfram að gera það er allt í lagi þótt ég búi ekki í Noregi en fari þangað til að spila á tónleikum annað slagið.“

Eitt þessara laga er nýkomið út og heitir Why Do They Try? Josefin er hrifin af því að vinna með íslensku listafólki sem hún segir að sé sérstaklega duglegt og hæfileikaríkt. Hún vann með listahjónum að verkefninu, en Búi Bjartmar Aðalsteinsson gerði myndbandið við lagið og kona hans, Íris Stefanía Skúladóttir, sá um að hanna útlit smáskífunnar.

Söngkonunni er fleira til lista lagt en tónlistin, en hún spilar körfubolta með meistaraflokki KR. Hún segir að henni líði eins og hún hafi alltaf æft íþróttina og þegar hún var yngri var hún fyrirliði norska unglingalandsliðsins. „Einhvern tíma ákvað ég svo að hætta að æfa til þess að geta einbeitt mér algjörlega að tónlistinni. Þegar ég var komin hingað í þetta smáfrí hugsaði ég með mér að nú væri ég til í að byrja að spila aftur þannig að ég hafði samband við KR og þau voru mjög jákvæð. Þannig að núna spila ég körfubolta, sem lög og nýt lífsins.“

Josefin ætlar að vera dugleg að spila á tónleikum á Íslandi og hlakkar til frumraunar sinnar á sviði í Reykjavík. Hún hvetur fólk til að mæta á Hemma og Valda í kvöld. „Þetta verður svo skemmtilegt, ég er mjög spennt og bara pínulítið stressuð.“

bergthora@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.