Innlent

Klovn spáð viðlíka vinsældum og Stieg Larsson

Ótrúlega vinsælir. Alls hafa 25 þúsund Íslendingar séð Klovn-myndina í bíó og er búist við því að hún fari yfir 30þúsund gesti um helgina. Aðsókn á kvikmyndir frá Skandinavíu hefur aukist síðust ár.
Ótrúlega vinsælir. Alls hafa 25 þúsund Íslendingar séð Klovn-myndina í bíó og er búist við því að hún fari yfir 30þúsund gesti um helgina. Aðsókn á kvikmyndir frá Skandinavíu hefur aukist síðust ár. Mynd/Anton Brink

„Aðsóknin hefur verið mjög góð og það hafa í kringum 25 þúsund séð myndina. Við reiknum fastlega með því að hún fari yfir þrjátíu þúsund gesta markið um helgina, það hefur verið það góður gangur á henni," segir Sigurður Victor Chelbat hjá Sambíóunum.

Ekki hefur verið hefð fyrir því að Íslendingar þyrpist í bíó til að sjá evrópskar kvikmyndir, þar sem aðalleikararnir tala ekki ensku. Og þaðan af síður ef myndirnar hafa verið á einhverju af Norðurlandamálunum. Á þessu varð hins vegar breyting þegar Karlar sem hata konur var frumsýnd í júlí 2009. Myndin var gerð eftir samnefndri bók Stiegs Larsson og þegar yfir lauk höfðu 52 þúsund Íslendingar séð hana. Hinar myndirnar tvær, Stúlkan sem lék sér að eldinum og Loftkastalinn sem hrundi, komust ekki nálægt þessari aðsókn. Tæplega 32 þúsund sáu Stúlkuna og „aðeins" 26 þúsund borguðu sig inn á Loftkastalann.

Snæbjörn Steingrímsson hjá Smáís, sem heldur utan um aðsóknartölur kvikmyndahúsanna, leyfir sér að efast um að aðsókn á myndir frá þessum löndum hafi einhvern tímann verið svona góð. „Karlar sem hata konur var náttúrulega einstök því þá kom í bíó fólk sem er ekki vant því að fara í bíó. En ég á alveg eins von á því að Klovn slái henni við, hún hefur verið að spyrjast það vel út og fólk virðist ekki hika við að sjá hana tvisvar," segir Snæbjörn.

Formlegar mælingar hófust ekki fyrr en 2005 og því er nokkuð erfitt að fullyrða að þessar fjórar myndir séu best sóttu skandinavísku kvikmyndirnar frá upphafi. „En menn skulu hafa það í huga að hér áður fyrr þótti það bara nokkuð gott ef kvikmynd frá Skandinavíu fékk yfir tíu þúsund gesti," segir Snæbjörn.

Klovn-myndin er nú þegar orðinn aðsóknarmesta kvikmynd Dana síðustu tíu ár og hefur slegið við Flammen og Citronen sem sló í gegn 2008. Alls hafa nú rúmlega 680 þúsund Danir greitt sig inn á Klovn: The Movie sem þýðir að bónus Klovn-tvíeykisins hækkar eflaust eitthvað frekar. Kvikmyndasérfræðingar í Danmörku eru sannfærðir um að aðsóknin eigi enn eftir að aukast og að Klovn gæti jafnvel átt eftir að slá fleiri met.

freyrgigja@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×