Innlent

Loka lögreglustöðinni í Búðardal

Búðardalur. Auk fasts lögreglumanns starfa þar tveir héraðslögreglumenn.
Búðardalur. Auk fasts lögreglumanns starfa þar tveir héraðslögreglumenn.

Lögregluumdæmi Borgarfjarðar og Dala þyrfti að fá tíu til tólf milljóna króna aukafjárveitingu ef halda ætti lögregluvarðstöðinni í Búðardal áfram opinni, að sögn Theodórs Þórðarsonar, yfirlögregluþjóns í Borgarnesi.

Einn lögreglumaður er starfandi á stöðinni og lögreglubíll staðsettur í Búðardal. Stöðinni verður lokað og þessi starfsemni lögð af vegna sparnaðarkröfu sem gerð hefur verið til lögreglunnar í umdæminu.

„Þetta tengist fjárhagsstöðunni hjá embættinu," segir Theodór. „Þetta er ekki það sem við viljum gera heldur er okkur þröngur stakkur sniðinn."

Hann segir að þótt til þessa niðurskurðar komi verði þrír héraðslögreglumenn áfram starfandi í Dölum, einn staðsettur í Saurbæ og tveir í Búðardal.

„Þegar fasti lögreglumaðurinn hefur verið í fríi hafa þessir lögreglumenn farið í hans stað á vettvang. Síðan hefur eftir atvikum komið lögregla úr Borgarnesi hafi þess þurft."

Theodór segir að löggæslu verði eftir sem áður stýrt með sem hagfelldustum hætti í umdæminu. Fjarskiptamiðstöð lögreglu sendi þann bíl sem næstur sé á vettvang, hvort um sé að ræða Dali eða önnur héruð.- jss

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.