Skoðun

Örorka og geðlyf

Steindór J. Erlingsson skrifar

Frá árinu 1990 hefur tíðni örorku vegna geð- og atferlisraskana nánast tvöfaldast hér á landi, án þess að tíðni þessara raskana hafi hækkað að ráði. Þetta kemur fram í grein eftir Sigurð Thorlacius, Sigurjón B. Sigurðsson, Stefán Ólafsson og Kristin Tómasson sem birtist á síðasta ári í Journal of Mental Health. Sem hlutfall af heildarfjölda öryrkja á tíma­bilinu 1990-2007, þá óx tíðni kvenna með örorku vegna geð- og atferlis­raskana úr 14% í 29%, meðan karlar fóru úr 20% í 35%. Höfundarnir velta fyrir sér ýmsum skýringum á þessari aukningu en eftir lestur greinarinnar stendur eftir mikilvæg spurning: Hvað með geðlyfin?

Eins og mikið hefur verið rætt um á undanförnum árum er ávísun geðlyfja hér á landi með því mesta sem þekkist í heiminum. Þegar þetta er haft í huga vaknar eftirfarandi spurning: Af hverju hafa geð­lyfin ekki dregið úr aukningu örorku vegna geðraskana? Árið 2004 veltu Tómas Helgason, Helgi Tómasson og Tómas Zoëga þessari spurningu fyrir sér í grein sem birtist í British Journal of Psychiatry, en þar er fjallað um áhrif þunglyndislyfja á heilsufar Íslendinga. Niðurstaða greinarinnar er að ekkert bendi til að hröð aukning á ávísun þunglyndislyfja hafi minnkað þann mikla vanda sem þunglyndi veldur. Greinarhöfundar benda enn fremur á að ekki muni draga úr þessum vanda fyrr en með tilkomu betri meðferða.

Þegar þessi niðurstaða er höfð í huga er eðlilegt að spyrja hvort langvarandi neysla geðlyfja geti mögulega aukið vanda þeirra sem kljást við geðraskanir. Bandaríski rannsóknarblaðamaðurinn Robert Whitaker svarar þessari spurningu játandi í bókinni Anatomy of an Epidemic sem út kom á síðasta ári. Það er ekki að ástæðulausu því á undanförnum tuttugu árum hefur örorka vegna geðraskana þrefaldast í Bandaríkjunum á sama tíma og ávísun geðlyfja hefur aukist gríðar­lega. Bók Whitakers, sem er vel rökstudd, hefur komið af stað hörðum deilum í Bandaríkjunum enda finnst mörgum geðlæknum hann vega að starfsheiðri þeirra. Íslendingum mun gefast færi á að hlýða á Whitaker 19. febrúar næstkomandi. Hann verður aðalfyrirlesari á málþingi sem Hugarafl, félag notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og fagaðila, stendur fyrir milli 14 og 17 í salnum Skriðu í húsnæði Kennaraháskólans. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn meðan húsrúm leyfir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×