Viðskipti innlent

Verðbólgan eykur á vanda Seðlabankans

Óli Kristján Ármannsson skrifar
við leifsstöð á Keflavíkurflugvelli Greining Íslandsbanka segir að hækkun flugfargjalda til útlanda, annan mánuðinn í röð, hafi komið á óvart. Nú hafi fargjöld í millilandaflugi hækkað um nærri 50 prósent frá febrúarbyrjun.
við leifsstöð á Keflavíkurflugvelli Greining Íslandsbanka segir að hækkun flugfargjalda til útlanda, annan mánuðinn í röð, hafi komið á óvart. Nú hafi fargjöld í millilandaflugi hækkað um nærri 50 prósent frá febrúarbyrjun. Fréttablaðið/valli
Tólf mánaða verðbólga stendur nú í 3,4 prósentum, samkvæmt mælingu Hagstofunnar. Hækkun vísitölu neysluverðs frá fyrra mánuði nemur 0,94 prósentum.

Verðbólgan er heldur meiri en spáð hafði verið. Greining Íslandsbanka spáði 0,6 prósentum, greiningardeild Arion banka og IFS greining 0,7 prósentum og markaðsvísir MP banka spáði 0,8 prósentum.

Í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka kemur fram að margt leggist á eitt í verðbólgu mánaðarins. Tíu prósenta hækkun á gjöldum fyrir heitt vatn og frárennsli og 15,5 prósenta hækkun á flugfargjöldum til útlanda vegi þungt, en hækkun flugfargjalda annan mánuðinn í röð hafi komið á óvart. „Sá liður hefur nú hækkað um nærri 50 prósent frá febrúarbyrjun. Þá hækkaði matvara talsvert meira en við höfðum búist við.“

Í markaðsvísi MP banka í gær er sagt að búast megi við áframhaldandi hækkun á tólf mánaða verðbólgu næstu mánuði. Sagt er líklegt að hún fari yfir 4,5 prósent seinni part sumars.

Þá segir Greining Íslandsbanka að mælingin viti tæpast á gott fyrir stjórnvöld. „Nýlokið er gerð kjarasamninga þar sem settir voru fyrirvarar um litla verðbólgu næstu misserin. Eru samningarnir uppsegjanlegir ef verðbólga verður ekki undir 2,5 prósenta markmiði Seðlabankans yfir árið 2012.“

Í Markaðspunktum Arion banka segir svo að verðbólguþróunin feli í sér verulegan vanda fyrir Seðlabankann. „Mun Seðlabankinn hækka vexti ofan í þann efnahagsslaka sem er til staðar? Að mati Greiningardeildar er Seðlabankinn hins vegar að kljást við margfalt stærra vandamál (en þann verðbólgukúf sem gengur nú yfir) en það snýr að trúverðugleika peningastefnunnar.“

Seðlabankinn sé enn einu sinni „lentur í því“ að fara inn í verðbólguskeið án nægilegs trúverðugleika.

„Í því ástandi hefur vaxtahækkun takmörkuð áhrif á væntingar almennings og markaðsaðila, þar með taldar verðbólguvæntingar. Má því velta fyrir sér hversu mikil (ef einhver) áhrifin yrðu af vaxtahækkun á verðbólgu næstu misserin. Í raun er hægt að færa rök fyrir því að vaxtahækkun yrði til þess fallin að hafa verðbólguhvetjandi áhrif.“

Kjósi peningastefnunefnd Seðlabankans ekki að bregðast fyrr við er næstu vaxtaákvörðunar að vænta hjá Seðlabankanum 15. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×