Innlent

Vilja ekki hreindýrin vestur

Dýraverndunarsamband Íslands telur Vestfirði ekki vel tilfallna fyrir hreindýr og leggst eindregið gegn hugmyndum um að flytja þau þangað.
Dýraverndunarsamband Íslands telur Vestfirði ekki vel tilfallna fyrir hreindýr og leggst eindregið gegn hugmyndum um að flytja þau þangað. Mynd/Vilhelm
Dýraverndunarsamband Íslands leggst eindregið gegn áformum áhugahóps Vestfirðinga um að flytja hreindýr til Vestfjarða. Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að hópurinn væri að kanna möguleika á að flytja tuttugu til fimmtíu hreindýr vestur en yfirdýralæknir er einnig mótfallinn þeim áformum, sérstaklega vegna hugsanlegrar hættu á að þau beri smit í sauðfé.

Í tilkynningu sem Dýraverndarsambandið sendir frá sér í kjölfar þessarar umfjöllunar segir: „Þar er ekki hentugt haglendi fyrir slík dýr sem ætlað er að lifa á algerum útigangi og hvergi er þar að finna kjörlendi sambærilegt því sem hreindýr á Austurlandi njóta. Einnig er bent á að veðurfar þar vestra hentar hreindýrum ekki og ljóst er að velferðar dýranna yrði ekki gætt við þær aðstæður sem þar ríkja.“

Magnús Ólafs Hansson, sem fer fyrir hópi Vestfirðinganna, segir að málið sé á rannsóknarstigi og ef í ljós komi að betur sé heima setið en af stað farið með þetta verkefni muni hópurinn láta af þessum hugmyndum.

Hann segir enn fremur að hópurinn hafi fengið álit hjá sænska yfirdýralæknisembættinu og þar segir að hreindýr geti ekki smitað sauðfé af riðu eða garnaveiki.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×