Innlent

Aftur til miðalda á Gásum í Eyjafirði

Myndir/Hörður Geirsson
Í dag fer fram fjórði og síðasti hátíðardagur Miðaldadaga á Gásum í Eyjafirði, árlegs viðburðar þar sem saga og hefðir kaupstaðarins eru hafðar í hávegum.

Samkvæmt Kristínu Sóleyju Björnsdóttur, framkvæmdastýru Miðaldadaga og héraðshöfðingja, hefur margt verið um að vera síðustu daga. Matur að hætti miðalda er framreiddur, eldsmiðir hamra járn og kaupmenn laða að viðskiptavini og skiptast á vörum svo dæmi séu nefnd. Á meðan óma ljúfir tónar um kaupstaðinn í bland við sverðaglamur og háreysti bardagamanna sem eigast við.

„Við byrjuðum í rauninni árið 2003 með þremur konum sem unnu að handverki og fornleifafræðingum sem sögðu frá um leið og þeir voru að vinna. Þetta stóð yfir í tvo klukkutíma. Í dag eru þetta orðnir fjórir dagar og allt að 90 Gásverjar að störfum." segir Kristín, en í morgun höfðu um 1.500 manns heimsótt hátíðina.

Kristín segir gesti hátíðarinnar að stærstum hluta vera íslenskt fjölskyldufólk sem vilji bæði hafa gaman og viða að sér vitneskju um miðaldir og upplifa það hvernig umhorfs var í gamla daga. „Þetta er bara lifandi sögumiðlun fyrir alla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×