Erlent

Stjórnarandstaðan ræðir við varaforsetann

Frá mótmælunum í Egyptalandi
Frá mótmælunum í Egyptalandi Mynd/AFP
Mótmælendur í Kaíró hafa komið á frumstæðu stjórnmálakerfi til að samræma kröfur sínar. Búist er við að stjórnarandstaðan ræði við varaforseta landsins í dag.

Mótmæli hafa geisað stanslaust síðustu ellefu daga í Egyptalandi, en rauði þráðurinn í mótmælunum hefur verið krafan um að Hosni Mubarak, forseti landsins, fari frá völdum.

Nú hafa fulltrúar hópa mótmælenda og grasrótarhreyfinga tekið sig saman um að setja saman fullbúinn lista með samræmdum markmiðum. Kröfurnar eru svo lesnar upp á Tahrir torgi, miðstöð mótmælanna, og það fer svo eftir því hvort mótmælendur fagna kröfunum eða baula á þær hvort staðið verði við þær.

Breska dagblaðið Guardian greinir frá þessari skipan mála, en kröfurnar eru meðal annarra að öll valdastéttin fari frá og sérstök nefnd skipuð fulltrúum hersins, ungliðahreyfinga og dómara velji nýja ríkisstjórn. Þá er einnig kallað eftir nýrri stjórnarskrá.

Haft er eftir einum ungliðanum að stjórnmálin hafi færst út á göturnar eftir að ríkisstjórnin lokaði fyrir aðgang að veraldarvefnum, og þetta sé eins lýðræðislegt ferli og hægt er miðað við aðstæður.

Enn er mótmælt á torginu, en mótmælin eru friðsamleg það sem af er degi, þrátt fyrir að andrúmsloftið sé spennuþrungið.

Búist er við að ýmsir stjórnarandstöðuflokkar ræði við varaforseta landsins í dag. Einhverjir þeirra höfðu áður neitað að koma að hvers kyns viðræðum við sitjandi stjórnvöld, en samþykktu það gegn því að yfirvöld rannsaki átök sem ítrekað hafa blossað upp við mótmælin. Bræðralag múslima neitar hins vegar enn að ræða við yfirvöld fyrr en Mubarak er farinn frá.

Mótmælin undanfarna daga hafa reynst Egyptum kostnaðarsöm, en forsetinn átti fund með ráðherrum sínum og seðlabankastjóra í dag til að ræða ástand efnahagsmála. Hagkerfið er nánast lamað, en sérfræðingar telja að mótmælin kosti að andvirði 35 milljarða króna vegna glataðrar framleiðslu og skemmda.

Þá hafa ferðamenn flúið landið og verð á vörum eins og tóbaki og brauði hefur hækkað mikið. Breska ríkisútvarpið hefur eftir fjármálaráðherra Egyptalands að ástand hagkerfisins sé alvarlegt, en stoðir þess séu þó traustar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×