Erlent

Hreinsunarstarf að hefjast í Brisbane

MYND/AP

Íbúar Brisbane í Ástralíu eru nú byrjaðir að hreinsa til eftir flóðin miklu. Vatnsborðið er farið að lækka í sumum hverfum borgarinnar en að minnsta kosti 30 þúsund byggingar í borginni voru umluktar vatni.

Þó varð eyðileggingin ekki eins mikil í þessari stærstu borg Queensland og óttast var í fyrstu, en veðurfræðingar vara við að rigningartímabilið sé ekki yfirstaðið og því gæti flætt á ný á næstu vikum. Þrír fjórðu hlutar Queensland hafa farið undir vatn á síðasta mánuðinum og eru 19 látnir.

Þúsundir þurftu að flýja heimili sín. Hreinsunarstörf munu taka marga mánuði og eru íbúar á þeim svæðum í Brisbane þar sem vatnið hefur sjatnað nú í óða önn að moka leðju út úr húsum sínum, sem verður eftir þegar vatnið fer. Þá hafa glæpir aukist borginni í kjölfar flóðanna enda eru mörg hús mannlaus eftir að eigendur hafa þurft að flýja og eru því freistandi bráð fyrir innbrotsþjófa. Rafmagn er að mestu komið á í borginni en í Queensland fylki öllu eru 66 þúsund heimili enn án rafmagns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×