Innlent

Sjötti dagur ársins með lélegum loftgæðum

Ef fer sem horfir verður svifryk yfir heilsuverndarmörkum sjötta daginn á árinu, og loftgæði þannig skert meirihluta þess sem liðið er af árinu
Ef fer sem horfir verður svifryk yfir heilsuverndarmörkum sjötta daginn á árinu, og loftgæði þannig skert meirihluta þess sem liðið er af árinu
Styrkur svifryks í Reykjavík verður sennilega yfir heilsuverndarmörkum í dag, 13. janúar, og yrði það í sjötta skiptið á þessu ári. Ástæða svifryksmengunar þennan hálfa mánuð sem liðinn er af nýju ári er fjölþætt meðal annars vegna ryks úr umhverfi, bílaumferðar og uppþyrlunar ryks af götum.

Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.

Aðalmælistöðin er við Grensásveg og farstöð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er nú við Tunguveg en báðar hafa þær sýnt styrk svifryks fimm sinnum yfir heilsuverndarmörkum á þessu ári. Á bilinu 12.00 til 12.30 í dag, 13. janúar, var styrkur svifryks við Grensásveg 456 míkrógrömm á rúmmetra og 623 við Tunguveg.

Heilsuverndarmörk á sólarhring eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.

Raki er lítill i loft og skapar það skilyrði til svifryksmengunar, þá hefur verið þurrt í veðri og vindur töluverður. Veðurspá bendir til einhverrar úrkomu á höfuðborgarsvæðinu í dag en þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri ættu taka tillit til aðstæðna og fylgjast með loftgæðum á vefmæli borgarinnar sem sýnir svifryksmengun við Grensásveg.

Á vef Reykjavíkurborgar má fylgjast með niðurstöðum mælinga á svifryki og samkvæmt þeim eru loftgæðin nú léleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×