Skoðun

Sparnaðarráð … fyrir allan peninginn

Reynir Einarsson skrifar

Í starfi mínu hjá fremur litlu fyrirtæki þar sem allir ganga í öll störf, er ég þessa dagana að fara yfir skráningar þess hjá Já annarsvegar og í Símaskrá hinsvegar. Jú þú last rétt, þetta er nefnilega ekki sami hluturinn þótt svo virðist við fyrstu sýn.

Þetta er merkileg staðreynd sérstaklega með tilliti til tölvutækninnar. Ef ég reyni að fara inn á slóðina www.1818.is þá kemur upp http://ja.is/vorur-og-thjonusta/118/.

Ef ég reyni við www.118.is þá gerist nákvæmlega það sama og loks ef ég slæ inn www.simaskra.is þá kemur upp http://ja.is/hradleit/. Bæði Já og Símaskráin eru skráð til húsa að Stórhöfða 33. Til að fullkomna plottið er það sami sölumaðurinn sem selur mér skráningu og auglýsingar í báða miðlana, ja.is og símaskrána og meira að segja í sama símtalinu.

Símaskráin er víst stærsta handbók sem gefin er út á Íslandi í dag 200.000 eintök er mér sagt og þar af fóru 150.000 eintök í dreifingu strax fyrstu vikuna. Örugglega satt og rétt. En hver les símaskrána í dag? Hjá mínu 10 manna fyrirtæki komu níu símaskrár af 2010 útgáfunni í hús með sendibíl, átta þeirra eru enn í plastinu. Þessa einu opnaði ég til að rífa blaðsíðu úr gulu síðunum til að ræða skráningarmálin á starfsmannafundi.

Á þeim fundi kom fram að fyrir skráningu hjá Já greiddi ég rétt um 100.000 krónur fyrir árið 2010 og fyrir skráningu í símaskrá greiddi ég 113.615 krónur. Það er einhver skítalykt af þessu. Hér er verið að selja sama hlutinn tvisvar, annarsvegar með vinstri hendinni og svo aftur með hægri hendinni og sú hægri veit ekki (eða vill ekki vita) hvað sú vinstri er að gera. Niðurstaða fundarins varð sú að mitt fyrirtæki ætlar ekki að borga 113.615 krónur fyrir það að vera í símaskrá 2011. Það verður eingöngu skráð þar eins og allir almennir símanotendur landsins, þ.e. í stafrófsröð undir Reykjavík og nágrenni. Það verður hvergi skráð í gulu síðurnar sem aftur þýðir að þjónustufulltrúar upplýsinga vita ekkert hvað fyrirtækið býður uppá.

Ha … hvað meina ég? Jú, mér hefur nefnilega verið tjáð af sölumanni já og símaskrár að þjónustufulltrúar 118 og 1818 styðjist við gagnagrunn sem byggður er á skráningum í pappírsskrána!

Ef Símaskrá er tilbúin að borga mér 113.615 krónur á hverju ári héðan í frá þá er ég tilbúinn að veita þeim upplýsingar um hvaða vörur og þjónustu ég hef uppá að bjóða svo þeir geti selt þær upplýsingar áfram í gegnum 118 og 1818 á allt að 82 krónur fyrir mínútuna. Að öðrum kosti verða væntanlegir viðskiptavinir mínir að leita að mér á ja.is með því að slá inn eitthvað af þeim 92 leitarorðum sem þar eru skráð og eru lýsandi fyrir mína vöru og þjónustu og sem ég greiði árlega um 100.000 krónur fyrir.

Ég hvet þig til að fá sömu niðurstöðu hjá þínu fyrirtæki og ná fram sparnaði … fyrir allan peninginn.

 




Skoðun

Sjá meira


×