Skoðun

Engan forgang að þjóðarauðlindum

Jóhann Ársælsson skrifar

Einar Guðfinnsson fjallar um auðlindamál í Mbl. 8.jan. 2011 undir fyrirsögninni „Forsætisráðherra boðar samningaleið“. Aðaltilgangur greinarinnar virðist vera að koma því á framfæri að forsætisráðherra hafi auðheyrilega verið á „samningaleiðinni“ í áramótaávarpi sínu.

Ástæða þessarar niðurstöðu þingmannsins getur varla verið önnur en sú að forsætisráðherra notaði orðin „sanngjarnari stefnu varðandi dýrmætustu auðlindir þjóðarinnar,“ og einnig orðin „að arðurinn renni með sanngjarnari hætti til allra íslendinga“ og vísaði þar með til annarra auðlinda líka sem vera skuli í þjóðareign. Þessi orð má skilja á ýmsa vegu en ég kýs að skilja þau í ljósi stjórnarsáttmálans og þeirrar staðreyndar að ákvæði í stjórnarskrá um auðlindir í þjóðareigu er í fæðingu. Slíkt ákvæði hlýtur að verða þannig orðað að enginn hafi eða fái forgang til nýtingar þjóðarauðlinda og að Alþingi eigi þess einan kost að setja reglur á jafnræðisgrundvelli um afnotin.

Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom til valda og lýsti stefnu sinni í stjórnarsáttmála hefur verið reynt að koma einhverskonar bannhelgi á orðin fyrning aflaheimilda og fyrningarleið. Þau lýsa þó aðallega vilja til að veita þeim sem nú stunda útgerð viðunandi aðlögunartíma að nýju umhverfi. Umhverfi þar sem jafnræði ríkir og allir greiði fullt verð til samfélagsins en ekki sægreifa fyrir rétt til nýtingar. Sjávarútvegsráðherra skipaði starfshóp til að sætta sjónarmið um framkvæmd stefnunnar. Í hópnum voru aðallega hagsmunaaðilar en líka fulltrúar stjórnmálaflokka. Það var með öllu ljóst frá upphafi að einhverskonar meirihlutaniðurstaða þessa hóps gat ekki orðið stefnumarkandi fyrir framhald málsins þó að sjálfsagt væri að leita eftir sjónarmiðum þeirra sem þarna settust að borði. Þrátt fyrir fyrrnefnda annmarka leitaði nefndin að einhverskonar niðurstöðu sem þeir sem við borðið sátu gætu flestir sætt sig við. Um þá niðurstöðu hafa menn rætt undir nafngiftinni samningaleið.

Það þekkja allir íslendingar frá barnsaldri dæmisöguna um fílinn og blindu mennina fimm. Þessi saga hefur flögrað ítrekað að mér við að fylgjast með umfjöllun um svokallaða samningaleið. Sagan sýnir vel hvernig upplifun manna af sama viðfangsefninu getur verið margvísleg eða að minnsta kosti frásagnir þeirra af þeirri upplifun. Ég hef hlustað á fulltrúa ríkisstjórnarinnar halda því fram að aðalmarkmiðum ríkisstjórnarflokkanna megi ná fram með útfærslu samningaleiðarinnar. En ég hef líka séð að bæði hagsmunaaðilar sem komu að málinu og gagnrýnendur niðurstöðunnar sem vilja fara aðrar leiðir telja að með þessari leið breytist í raun ekki neitt. Eignarhaldi útgerða á auðlindinni verði einungis skipt út fyrir eignarhald útgerða á veiðirétti. Ég hef ekki forsendur til að meta hvort er rétt fyrr en útfærsla samningaleiðarinnar liggur fyrir.

Eftir fyrrnefndan aðdraganda er hafin smíði frumvarps um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og Alþingi á eftir að fjalla um frumvarpið. Þar eiga þingmenn að meta hvort með því verði farið að vilja þjóðarinnar. En í þessu máli hefur Alþingi ekki endurspeglað vilja þjóðarinnar fram að þessu heldur hagsmunaaðila og valdhafa. Ég hef stundum orðað það svo að það séu einungis tvær samkomur þar sem meirihluti hafi verið fyrir eignarhaldi útgerðarmanna á auðlindum sjávar, sem sé á aðalfundum LÍÚ og á Alþingi. En þetta má til sanns vegar færa og það hefur undrað mig af hve mikilli óbilgirni og forherðingu sjálfstæðismenn (og sumir framsóknarmenn) hafa barist fyrir séreign útgerðarmanna á veiðirétti fram á síðustu daga.

Ég leyfi mér hins vegar að trúa því að það frumvarp sem nú er sagt í smíðum á vegum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur verði í fullu samræmi við stjórnarsáttmálann og boðaða stefnu stjórnarflokkanna og tefji ekki eða hamli með neinum hætti gildistöku ákvæðis um þjóðareign á auðlindum. Alþingi taki því ekki með neinum hætti fram fyrir hendur Stjórnlagaþings en leiti þess í stað samninga og sátta við þjóðin sjálfa en ekki einungis hagsmunaaðila um framtíð auðlindavörslunnar. Ef Alþingi reynir að forða sérhagsmunum núverandi útgerðarmanna undan áhrifum af nýju ákvæði um þjóðareign á auðlindum eins og Einar Guðfinnsson virðist binda vonir við mun þjóðin ekki taka því vel og stuðningsmenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þó verst.

 




Skoðun

Sjá meira


×