Innlent

Spá fækkun dauðsfalla af völdum krabbameins

Sérfræðingar búast við því að töluvert dragi úr dauðsföllum af völdum krabbameins í Evrópu þetta árið samanborið við síðustu ár. Sérfræðingarnir styðjast við gögn frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og segjast þeir geri ráð fyrir að dauðsföllum af völdum krabbameins fækki um sjö prósent hjá körlum og um sex prósent hjá konum, borið saman við árið 2007. Reiknað er með að samanlagt látist 1,3 milljónir manna af völdum krabbameins á árinu.

Dregið hefur úr tíðni krabbameins í maga, ristli, brjóstum, leghálsi, blöðruhálskirtli og í lungum karlmanna og er búist við að sú þróun haldi áfram. Tíðni lungnakrabbameins á meðal kvenna fer hinsvegar vaxandi í öllum helstu ríkjum Evrópu, að Bretlandi undanskildu.

Reyndar hefur lungnakrabbi á meðal kvenna hvergi verið tíðari en á Bretlandseyjum og þar er ekki um lækkun að ræða heldur virðist þróunin hafa náð nokkurs konar jafnvægi þar. Helsta skýriningin á fækkun dauðsfalla vegna krabbameins í Evrópu er rakin til þess að mun færri konur látast úr brjóstakrabbameini en áður og einnig hefur dregið úr dauðsföllum af völdum lungnakrabba hjá körlum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×