Enski boltinn

Coe: Beckham gæti orðið stjarnan í breska Ólympíuliðinu 2012

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham er vinsæll leikmaður.
David Beckham er vinsæll leikmaður. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sebastian Coe, formaður skipulagsnefndar Ólympíuleikanna í London 2012, segir að David Beckham gæti orðið aðalstjarna breska fótboltaliðsins á leikunum hvort sem er að hann þjálfi liðið eða spili með. Knattspyrnukeppnin á ÓL er fyrir leikmenn 23 ára og yngri en þrír eldri leikmenn fá að vera með.

Sebastian Coe vill sjá leikmenn eins og David Beckham, Steven Gerrard og Frank Lampard spila með breska fótboltaliðinu á leikunum til þess að vekja meiri athygli á keppninni.

„Við munum ekki fá stórt alþjóðlegt fótboltamót í Englandi á næstu árum og við ættum að nota fótboltakeppni Ólympíuleikanna til þess að vekja áhuga unga fólksins á íþróttinni," sagði Sebastian Coe.

„Þetta er mót fyrir leikmenn 23 ára og yngri en það mega þrír eldri vera með. Að mínu mati ættu þeir leikmenn að vera Steven Gerrard eða Frank Lampard sem eru komnir á lokasprettinn á sínum ferli eða jafnvel David Beckham. Ég gæti einnig séð David Beckham fyrir mér sem þjálfara liðsins þó að ég gangi kannski aðeins of langt með því að segja það," sagði Sebastian Coe.

Sebastian Coe hefur áður talað við Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United, um að stýra breska liðinu en enska knattspyrnusambandið mun ákveða það hver verður þjálfarinn og hverjir spila fyrir breska liðið.

„Ég mun ekki ákveða þetta heldur enska knattspyrnusambandið og breska Ólympíunefndin. Ég tel samt að Sir Alex Ferguson eigi að fá þetta starf enda búinn að vera andlit enska boltans í 25 ár," sagði Coe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×