Enski boltinn

Dalglish: Pepe Reina er besti markvörðurinn í deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pepe Reina einn á móti David Silva.
Pepe Reina einn á móti David Silva. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er sannfærður um að góður varnarleikur liðsins muni spila aðalhlutverkið í að hjálpa liðinu að tryggja sér aftur sæti með fjögurra efstu liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool er þessa stundina með bestu vörnina í ensku úrvalsdeildinni samkvæmt tölfræðinni en liðið hefur aðeins fengið á sig þrettán mörk í fyrstu sextán leikjum sínum. Pepe Reina hélt hreinu í sjötta sinn í 2-0 sigri á Aston Villa um helgina.

„Þetta kemur ekki á óvart. Við erum með besta markvörðinn í ensku úrvalsdeildinni, enskan landsliðsbakvörð, tvo landsliðsmiðverði og líklega besta vinstri bakvörðinn sem hefur ekki spilað landsleik," sagði Kenny Dalglish við Guardian.

Hér talar Dalglish um Pepe Reina, Glen Johnson, Daniel Agger og Martin Skrtel og svo José Enrique. Agger og Skrtel hafa verið svo góðir saman að Jamie Carragher kemst ekki lengur í liðið.

„Staðreyndin að Carragher er ekki að spila segir mikið til um hvernig þeir Daniel og Martin eru að spila. Carra hjálpaði líka til að gera þetta að bestu vörninni þegar hann var heill. Síðan að hann meiddist hafa þessir tveir spilað frábærlega," sagði Dalglish.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×