„Það skiptir mun meira máli hvernig maður tekur á áföllum heldur en áföllin sjálf," segir íþróttafræðingurinn Goran Kristófer Micic. Hann var rekstraraðili líkamsræktarstöðvarinnar Grand Spa sem var opnuð árið 2007 og ætluð fyrir efnameira fólk. Goran missti stöðina fyrr á þessu ári en þrátt fyrir erfiðleikana heldur hann ótrauður áfram.
„Rekstur Grand Spa gekk ekki upp. Vissulega er það sárt en ég hef heilsuna og það er bara þannig að þegar maður kemur að vegamótum í lífinu þá er alltaf val," segir hann.
Nú hefur farið af stað með svonefndar matartöskur sem hann kemur sjálfur með til viðskiptavina sinna á hverjum degi og fylgist með hvernig þeim gengur.
Goran fékk til liðs við sig meistarakokk af Hótel Holti, Friðgeir Inga Eiríksson, sem sér um matinn. „Friðgeir hefur sett saman þrjár leiðir. Einn fyrir þá sem eru að byggja upp, annan fyrir þá sem vilja léttast og þann þriðja sem vilja viðhalda og njóta góðrar fæðu," segir hann.
Nokkur fyrirtæki bjóða þegar upp á matarpakka en Goran segist vera frumkvöðull á þessu sviði hér á landi. „Ég byrjaði á þessu fyrir rúmum tveimur árum eftir að hafa verið að gefa fólki ráð varðandi næringu, ráð sem farið var eftir að hluta. Hálfkák virkar ekki svo ég byrjaði að útbúa matartöskur fyrir mína kærustu viðskiptavini og það bara vatt uppá sig," segir hann.
Á vefsíðu Gorans segir að hann komi sjálfur með matartöskurnar til viðskiptavina. Hefur hann ekki áhyggjur af því að ná ekki að sinna öllum útkeyrslum?
„Ég er með takmarkaðan fjölda viðskiptavina og sinni þeim vel, þá halda þeir áfram eða jafnvel taka skrefið yfir í að ráða mig sem einkaþjálfara og gott orðspor skilar manni auknum viðskiptum. Að sjálfsögðu er heldur ekkert vit í öðru þegar maður fer af stað aftur á eigin vegum að maður geri allt sjálfur. "
Hann segist heldur ekki vera matarsendill: „Ég er sá sem færir þér frábærlega samsetta fæðu og nógu ákveðinn til að fylgjast með að þú látir hana duga, fallir ekki í sykursukk, klappa þér á bakið þegar þú stendur þig og hvet þig áfram, alveg eins og ég áskil mér rétt til að skamma þig nett fyrir að fara út fyrir prógrammið," segir hann.
En er þetta rétti tíminn til að fara af stað með svona starfsemi, þar sem jólin eru jú á næsta leyti?
„Það er tækifæri núna til að byrja að trappa sig niður fyrir jólin. Það mun gera að verkum að jólasteikin bragðast enn betur og ekki verður ástæða til að losa um beltið og hafa samviskubit," segir hann.
Tengdar fréttir:
Lúxus-heilsurækt fyrir efnaða fólkið
