Erlent

Perry segir koma til greina að senda herinn til Mexíkó

Mynd/AP
Rick Perry ríkisstjóri í Texas sem er á meðal þeirra repúblikana sem sækjast eftir útnefningu sem forsetaefni flokksins segir koma til greina að bandarískir hermenn verði sendir til Mexíkó til þess að berjast við glæpagengin sem þar ráða lögum og lofum. Þetta kom fram í ræðu sem Perry hélt í New Hampshire í gær.

Ekki er búist við því að tillagan falli í frjóan jarðveg hjá ráðmönnum í Mexíkó þar sem fullveldið er talið nær heilagt, sérstaklega gagnvart Bandaríkjamönnum en Mexíkó missti hálft landsvæði sitt í stríðinu við Bandaríkjamenn á nítjándu öld.

Stjórnarskrá landsins setur til að mynda mjög strangar reglur um veru erlendra hermanna í landinu.

Tugþúsundir manna hafa verið myrtir á undanförnum árum í blóðugum bardögum glæpamanna sem berjast um yfirráðin yfir eiturlyfjamarkaði landsins og smygli til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×