Erlent

Vítisenglar: Samtals dæmdir í 130 ára fangelsi

15 menn sem allir tengjast Vítisenglum í Danmörku voru í gær dæmdir í samtals 130 ára fangelsi. Einna þyngsta dóminn fékk Brian Sandberg, einn leiðtoga Vítisengla í landinu en hann var dæmdur í tæplega tólf ára fangelsi fyrir morðtilraun og fyrir að skipa öðrum að fremja morð.

Málareksturinn gegn meðlimum mótorhjólagengisins er sá umfangsmesti í sögu Danmerkur og höfðu saksóknarar krafist þyngri refsinga og meðal annars að þrír meðlimanna yrðu dæmdir í lífsstíðarfangelsi. Mennirnir voru allir ákærðir fyrir aðild sína að átökum sem blossuðu upp á milli Vítisengla og áhangenda þeirra annarsvegar og gengja innflytjenda annarsvegar.

Enginn lést í átökunum en margir munu aldrei ná sér af alvarlegum meiðslum.  Fjórir fullgildir meðlimir Vítisenglanna voru dæmdir en sá sem þyngstan dóminn hlaut var áhangandi sem var að reyna að vinna sig upp í áliti til að hljóta fulla aðild. Hann var sakaður um sex morðtilraunir og sakfelldur í fjórum þeirra og dæmdur í fimmtán ára fangelsi.

Ellefu af þessum fimmtán hafa þegar áfrýjað dómum sínum og verða þeir í gæsluvarðhaldi uns dómur fellur í Hæstarétti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×