Erlent

Vilja banna nærfataauglýsingu með Gisele Bündchen

Brasilísk yfirvöld eru ekki sátt við nýja nærfataauglýsingu ofurfyrirsætunnar Gisele Bündchen. Lagt er til að auglýsingin, sem var frumsýnd þann 20. september í Brasilíu, verði bönnuð vegna misvísandi skilaboða.

Þannig hefur jafnréttisráði Brasilíu borist fjölda kvartana og ráðið vill að auglýsingin verði tekin út birtingu.

Í auglýsingunni sést ofurmódelið lýsa því hvernig hún eyddi of miklu af peningum eiginmannsins, klessti bílinn og framdi þá höfuðsynd að bjóða tengdamömmu í heimsókn. Næst sést hún í kynæsandi nærfatnaði frá fyrirtækinu Hope og segir að besta lausnin sé að tæla eiginmanninn til þess að milda reiði hans.

Svo segir rödd yfir auglýsingunni: „Þú ert brasilísk kona - notaðu kynþokkann.“

Þess má geta að fyrsti kvenforseti Brasilíu var kosinn í landinu fyrir níu mánuðum síðan. Það er Dilma Rousseff.

Í grein um málið sem finna má á Daily Telegraph segir að samkvæmt könnunum Sameinuðu þjóðanna þá eru viðhorf kvenna í Brasilíu að breytast og umræðan um kvenréttindi hefur aukist til muna.

Hér fyrir ofan má svo sjá auglýsinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×