Innlent

Óeirðasveit lögreglunnar óstarfhæf

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Óeirðasveit lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er óstarfhæf eftir að yfirgnæfandi meirihluti sveitarmanna ákvað að segja sig úr sveitinni síðdegis í dag. Áhyggjuefni segir innanríkisráðherra.

Yfirgnæfandi meirihluti lögreglumanna óeirðasveitarinnar á höfuðborgarsvæðinu samþykkti á fundi síðdegis í dag að segja sig úr sveitinni. Rúmlega áttatíu lögreglumenn voru á fundinum og var samstaða einkennandi meðal fundarmanna. Með uppsögnunum eru uppsagnir óeirðarsveitarmanna komnar yfir hundrað talsins, en nú þegar hafa tugir lögreglumanna í sveitum víðsvegar um landið sagt sig frá þeim störfum, meðal annars á Suðurnesjum við Eyjafjörð, á Akranesi, Selfossi og í Bogarnesi. En hvað þýðir úrsögnin úr sveitinni?

„Það þýðir að hópur aðgerðasveitarmanna, eins og fólk hefur séð við Austurvöll síðustu 2-3 ár, verða ekki lengur til staðar," segir Leifur Halldórsson, rannsóknarlögreglumaður.

En er ekki hægt að skikka lögreglumennina til að sinna þessum störfum?

„Við teljum okkur ekki skylduga til þess að sinna þessum störfum. Við erum vissulega skyldugir til þess að mæta til vinnu og sinna henni sem slíkri," segir Leifur og bætir við: „Við búum ekki við þetta ofríki stjórnvalda lengur. Við erum búnir að fá nóg."

Sumir lögreglumenn höfðu á orði eftir fundinn að bjór muni vera mjög vinsæll drykkur meðal lögreglumanna við morgunverðarborðið á laugardagsmorgun.

„Það er vissulega óánægja með kjörin og það er eitthvað til þess að hafa áhyggjur af. Við verðum að horfa á þetta til framtíðar og koma kjaramálum lögreglunnar í betri farveg. Þetta eru erfið störf við og höfum öll góðan skilning á því," segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×