Sport

Serena komin í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serena Williams í viðureign sinni á US Open í dag.
Serena Williams í viðureign sinni á US Open í dag. Nordic Photos / Getty Images
Serena Williams tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum í einliðaleik kvenna á opna bandaríska meistaramótinu í tennis.

Williams hafði betur gegn Anastasiu Pavluychenkovu frá Rússlandi í tveimur settum, 7-6 og 6-1. Þetta er besti árangur hennar á stórmóti í tennis síðan hún vann Wimbledon-mótið í fyrra en fyrr á árinu var hún lengi fjarverandi vegna meiðsla og veikinda.

Samantha Stosur frá Ástralíu er einnig komin áfram í undanúrslitin en hún gerði sér lítið fyrir og vann Veru Zvonarefu frá Rússlandi, 6-3 og 6-3, en sú síðarnefnda er í öðru sæti heimslistans í tennis.

Sextán manna úrslitunum í karlaflokki lauk loksins í dag en fresta þurfti mörgum viðureignum vegna veðurs síðustu daga. Þeir Rafael Nadal og Andy Murray tryggðu sér þá sæti í fjórðungsúrslitunum.

Nadal vann Gilles Mülles frá Lúxemborg í þremur settum, 7-6, 6-1 og 6-2 en á sama tíma hafði Murray betur gegn heimamanninum Donald Young - einnig í þremur settum, 6-2, 6-3 og 6-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×