Enski boltinn

Lukaku: Ég mun læra af Drogba

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lukaku, lengst til hægri, ásamt Oriel Romeu og Andre Villas-Boas.
Lukaku, lengst til hægri, ásamt Oriel Romeu og Andre Villas-Boas. Nordic Photos / Getty Images
Romelu Lukaku segir það rangt að hann sé kominn til Chelsea til að leysa Didier Drogba af hólmi í sóknarleik liðsins. Hins vegar muni hann læra mikið af honum.

Lukaku er aðeins átján ára gamall og var keyptur til Chelsea frá belgíska liðinu Anderlecht fyrr í sumar. Honum þykir mikið til þess koma að honum hafi verið líkt við Drogba.

„Ég sit við hliðina á Drogba í búningsklefanum. Þar hlusta ég á þær ráðleggingar sem hann hefur fram að færa,“ sagði Lukaku í viðtali við enska fjölmiðla.

„Mér er mikill heiður sýndur þegar verið að bera mig saman við Didier. Það sama á við um þá Nico (Nicolas Anelka) og Fernando (Torres). Ég er mjög ánægður með að vera í kringum þessa heimsklassasóknarmenn.“

„Ég er ekki kominn hingað til að leysa Didier af hólmi - heldur til að spila fyrir chelsea. Ég vona að hann verði hér eins lengi og mögulegt er því ég vil spila með honum til að læra af honum. Hann er frábær sóknarmaður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×