Enski boltinn

Mancini: Nasri ætti að vera löngu kominn

Kolbeinn Tumi skrifar
Mancini ásamt Mubarak stjórnarformanni og Garry Cook framkvæmdastjóra.
Mancini ásamt Mubarak stjórnarformanni og Garry Cook framkvæmdastjóra. Nordic Photos/AFP
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, er allt annað en sáttur við vinnubrögð stjórnar félagsins. Hann segir stjórnina annað árið í röð ekki standa sig þegar kemur að leikmannakaupum yfir sumartímann.

„Á síðasta ári var vandamálið það sama. Ég skil þetta ekki. Ég taldi að við myndum fá leikmennina sem okkar vantar fyrir þremur eða fjórum vikum. Hér erum við og enn eru félagaskiptin ekki frágengin," sagði Mancini við breska fjölmiðla.

Félagaskipti Samir Nasri frá Arsenal hafa legið í loftinu í töluverðan tíma. Kaupverðið er talið vera samþykkt en ósætti virðist ríkja með greiðsluformið.

„Við þurfum á þessum leikmanni (Nasri) að halda. Ég óskaði eftir því að fá hann fyrir tveimur mánuðum. Ég hef áhyggjur vegna þess að hann er ekki kominn og kemur væntanlega ekki á morgun heldur. Við spilum þrjá leiki í ágúst og ég hef áhyggjur," sagði Mancini.

Mancini neitaði að gefa upp hvort Vincent Kompany yrði fyrirliði City til langstíma í stað Carlos Tevez. Kompany hefur borið fyrirliðabandið á undirbúningstímabilinu í fjarveru Carlos Tevez.

„Ég ákveð það, enginn annar. Ég hef tekið ákvörðun en ekki tilkynnt leikmönnum mínum. Þið munið sjá hver er fyrirliði næst þegar Carlos spilar. Það skiptir ekki máli núna. Það skiptir meira máli að ná í þá leikmenn sem okkur vantar," sagði Mancini.

City mætir nýliðum Swansea á heimavelli á mánudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×