Viðskipti innlent

OECD: Íslendingar hraði afnámi gjaldeyrishafta

Hafsteinn Hauksson skrifar
Mynd/Vilhelm
OECD leggur til að Íslendingar hraði afnámi gjaldeyrishafta og standi vörð um fiskveiðistjórnunarkerfið. Stofnunin er á meðal þeirra sem hömpuðu bankakerfinu fyrir hrun, en segist hafa lært mikið síðan þá.

Efnahags- og framfarastofnunin OECD kynnti reglubundna skýrslu um íslenska hagkerfið á fjarfundi í dag, en síðasta skýrsla kom út árið 2009. Þar er sagt að batinn í hagkerfinu sé senn að hefjast, þó ýmislegt sé ógert enn.

Stofnunin varar við breytingum á núverandi kvótakerfi, sem sagt er bæði skilvirkt og sjálfbært. Þótt almenningi kunni að þykja upphafleg úthlutun kvótans ósanngjörn sé lítið hægt að gera í því núna, þar sem flestir eigendur kvótans hafi keypt hann á markaði. Hins vegar segir OECD að hækkun auðlindagjalds gæti stuðlað að sátt um kerfið, og dregið úr þörfinni á annarri skattheimtu.

Þá hvetur stofnunin til að gjaldeyrishöft verið afnumin sem fyrst, þar sem þau leiði til óhagræðis og minni ávöxtunar í hagkerfinu.

OECD er ein þeirra stofnana sem fór fögrum orðum um Ísland í aðdraganda hrunsins, og sagði meðal annars að uppgangur fjármálakerfisins væri til heilla fyrir þjóðina alla í sambærilegri skýrslu árið 2006.

Hvaða trúverðugleika telurðu að slíkar skýrslur hafi í hugum Íslendinga og hvaða trúverðugleika telurðu að þær ættu að hafa eftir bankahrunið?

„Þetta er erfið spurning eins og þú veist. Ég tel að ekki aðeins alþjóðastofnanir heldur einnig hagfræðingar hafi lært mikið af því sem gerðist í fjármálakreppunni og hafi einmitt orðið að setja spurningamerki við sumar þeirra helstu forsendna sem lágu til grundvallar þeirri greiningu sem við unnum áður. Við erum að læra. Okkur getur greinilega skeikað,“ segir David Carey, einn höfunda skýrslu OECD.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×