Innlent

Össur: Tekur þrjú ár að taka upp evruna frá samþykkt í þjóðaratkvæði

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að ef Íslendingar myndu samþykkja inngöngu landsins í Evrópusambandið gæti það tekið þrjú ár að taka upp evruna sem gjaldmiðil.

Hann sagði að íslenskur þingmaður, sem sé með miklu merkilegra doktorspróf en hans eigið, hafi lýst því margsinnis yfir að það gæti tekið allt að 35 ár fyrir Íslendinga að taka upp evruna vegna ákvæða Maastricht samningsins um skuldir ríkisins.

„Líklega hefði sá ágæti maður þurft annað doktorspróf. Nú liggur það nefnilega fyrir í mati bestu sérfræðinga okkar að skuldastaða íslenska ríkisins er víðs fjarri því að verða Þrándur í Götu Íslands að evrunni. Íslendingar gætu með réttri heimavinnu tekið upp evruna 3 árum eftir samþykkt aðildar í þjóðaratkvæði."

Í ræðu sinni um utanríkismál á Alþingi í dag ítrekaði Össur mikilvægi þess að Íslendinga fengju sjálfir að taka afstöðu til aðildar að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hann vék einnig að umræðunni um að fullveldi Íslands tapist við aðild að sambandinu.

„Hvert er okkar fullveldi, þegar við þurfum í viku hverri að aðlaga okkur að ESB vegna samningsins um evrópska efnahagssvæðið með nýjum reglum, nýjum tilskipunum, nýjum þingsályktunum, nýjum lögum, þar sem íslenskir þingmenn, íslenskir ráðherrar, íslenskur almenningur, getur ekki breytt einum einasta stafkrók? Er það fullveldið sem við viljum?"

Þá sagði hann að smáríkin í ESB væru bestu bandamenn Íslendinga í umsóknarferlinu og sagði að þau telji að fullveldi þeirra hafi eflst með inngöngu í sambandið. „Við

erum ekkert öðruvísi en þau. Reynslan sem við Íslendingar fundum vel í Icesave, er að smáríkin verja hagsmuni hvers annars með kjafti og klóm. Þessvegna er fullveldi okkar betur tryggt í samstarfi innan sambandsins en utan."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×