Lífið

Norska pressan spennt fyrir komu Jóhönnu

Flutningar söngkonunnar Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttir og kærasta hennar, Davíðs Sigurgeirssonar, til Noregs vekur athygli.
Flutningar söngkonunnar Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttir og kærasta hennar, Davíðs Sigurgeirssonar, til Noregs vekur athygli. Fréttablaðið/Stefán
„Ég elska Noreg. Það er fallegt land, íbúarnir og landslagið gerir það að verkum að mér líður eins og heima hjá mér,“ segir söngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir í samtali við vefmiðil norska ríkissjónvarpsins, NRK.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá er Jóhanna Guðrún að flytja til Noregs og sýna norskir fjölmiðlar komu hennar mikinn áhuga. Er það helst vegna þátttöku hennar í Eurovision árið 2009 þar sem hún var eini þátttakandinn sem veitti framlagi Noregs, Alexander Rybak, verðuga samkeppni og hefur lagið Is it True farið inn á vinsældalista og verið mikið spilað á útvarpstöðum þar í landi.

Jóhanna Guðrún flytur út ásamt kærasta sínu, Davíð Sigurgeirssyni, og hundi þeirra en hún segir við NRK að hún sé að leita að hentugri íbúð á Óslóarsvæðinu. Ástæðan fyrir flutningnum er að Jóhanna Guðrún vill láta reyna á tónlistardrauminn í Skandinavíu.

„Mér þykir vænt um Ísland en stóri draumurinn er að slá í gegn úti. Noregur varð fyrir valinu þar sem ég hef fengið góðar móttökur þar hingað til.“

Jóhanna Guðrún segist vera byrjuð að læra norskuna og að þau reyni að hafa alltaf norskan texta þegar þau horfa á kvikmyndir. „Það er fyndið. Norskan er ekki svo ólík íslensku. Við tölum gömlu útgáfuna af ykkar tungumáli og mörg orð eru eins.“

Jóhanna Guðrún ætlar að gefa út nýja plötu á næsta ári og segist alveg geta hugsað sér að taka þátt i Eurovision á ný, meira að segja fyrir hönd Noregs.

„Já, af hverju ekki? Með rétta laginu og tímasetningunni getur það vel verið. Það væri mikill heiður fyrir mig ef Norðmenn vildu að ég syngi fyrir þeirra hönd.“ -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.