Sport

Eiður slapp naumlega

Eiríkur Stefán Ásgeirssno skrifar
Eiður Smári í leik með Fulham fyrr á leiktíðinni.
Eiður Smári í leik með Fulham fyrr á leiktíðinni. Nordic Photos / Getty Images
Fyrsti byrjunarliðsleikur Eiðs Smára Guðjohnsen hefði getað endað illa en litlu mátti muna að hann hefði lent í tveggja fóta tæklingu Richard Stearman, leikmanni Wolves í gær.

Fulham, lið Eiðs Smára, gerði í gær 1-1 jafntefli við Wolves en Stearman fékk að líta gula spjaldið fyrir tæklinguna á þrettándu mínútu leiksins.

Stearman fór í tæklinguna af miklum krafti en Eiður sá greinilega í hvað stefndi því hann náði að hoppa upp úr henni á síðustu stundu.

Stearman var í raun ljónheppinn að sleppa aðeins með gult spjald og Eiður ekki síður við möguleg meiðsli enda margir farið illa úr tæklingum sem þessari.

Wolves komst yfir á 21. mínútu leiksins en Eiður fékk gott tækifæri til að jafna metin á 52. mínútu en tókst ekki. Honum var svo skipt af velli á 68. mínútu en Andy Johnson skoraði jöfnunarmark Fulham ellefu mínútum síðar.

Johnson hrósaði þó Eiði Smára fyrir góða frammistöðu í leiknum.

„Við spiluðum virkilega vel en þetta var bara einn af þessum dögum,“ sagði Johnson í viðtali á heimasíðu Fulham. „Eiður og Mousa voru frábærir. Eiður getur haldið boltanum mjög vel og það var ótrúlegt hvernig hann náði að halda boltanum fyrir liðið.“

„Mér fannst allt liðið standa sig mjög vel og því eru það vonbrigði að hafa náð aðeins einu stigi. En maður sættir sig við jafnteflið eftir að hafa skorað svona seint í leiknum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×