Innlent

Verja 300 milljónum í viðhald og atvinnuátaksverkefni

Dagur B. Eggertsson er formaður Borgarráðs.
Dagur B. Eggertsson er formaður Borgarráðs.
Borgarráð samþykkti í morgun að verja 150 milljónum króna til atvinnuátaksverkefna í samvinnu við Vinnumálastofnun. Þá verður einnig varið 150 milljónum í sérstakt átaksverkefni í viðhaldi bygginga og endurgerð gamalla húsa.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að margt bendi til þess að atvinnu- og efnahagslíf sé að taka við sér eftir bankahrunið. „Þó má búast við að afmarkaður hópur þeirra sem lengst hafa verið atvinnulausir, fari að falla út af bótum og óska eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins. Reykjavíkurborg vill draga úr atvinnuleysi, einkum langtímaatvinnuleysi, með því m.a. að ráða atvinnulausa í átaksverkefni af margvíslegu tagi. Hundrað og fimmtíu milljónum verður varið til verkefna í þágu ungs fólks, til virkniverkefna fyrir fólk á fjárhagsaðstoð, til fólks með takmarkaða starfsgetu (fötlun) og til nýsköpunarsjóðsverkefna," segir í tilkynningunni.

Eins og fyrr segir, verða 150 milljónum varið í sérstakt átaksverkefni sem felst í viðhaldi og endurgerð gamalla húsa. „Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun og er gert ráð fyrir að það verði boðið út til verktaka sem ráði til sín starfsmenn af atvinnuleysisskrá. Það fyrirkomulag er talið heppilegra og auka líkurnar á því að fólk sé ráðið áfram hjá viðkomandi fyrirtæki."

Þá verður ráðinn sérstakur verkefnisstjóri til að vera tengiliður borgarinnar við Vinnumálastofnun og Atvinnuleysistryggingastjóð. „ Jafnframt mun hann aðstoða og taka við umsóknum frá fagsviðum um störf við átaksverkefni og taka ákvörðun með mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar um afgreiðslu erinda í samræmi við viðmið borgarráðs. Aðgerðahópur borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar gerir tillögur til borgarráðs um nýtingu fjármunanna en verkefnisstjóri og mannauðsstjóri sjá um útfærslu og nánari framkvæmd," segir ennfremur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×