Skoðun

Komum hugmyndum í framkvæmd

Kristján Freyr Kristjánsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir skrifar
Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir
Til þess að koma viðskiptahugmynd í framkvæmd þarf margt að koma til. Augljóslega þarf hugmyndin að vera góð, en ekki síður þarf frumkvöðullinn að finna sér gott fólk til vinna með, hann þarf að finna fjármagn, fá rágjöf og komast yfir margvíslegar hindranir sem verða á leið allra þeirra sem vilja stofna ný fyrirtæki.

Fyrir þau okkar sem störfum við að aðstoða fólk með viðskiptahugmyndir er ljóst að flestir hugmyndasmiðir glíma við svipaða erfiðleika í upphafi. Allt eru það þekktar stærðir en kannski hefur samt ekki verið brugðist nægjanlega vel við þeim og aðgengi að t.d. ráðgjöf fyrir frumkvöðla hefur ekki verið nægjanlegt í gegnum tíðina.

Okkar hugmynd að lausn á þessu, a.m.k. að hluta, eru Atvinnu- og nýsköpunarhelgar að erlendri fyrirmynd (e. Start-up weekends). Þær verða haldnar um allt land og sú fyrsta verður haldin þann 30. september á Suðurnesjum og svo fylgja a.m.k. fimm til viðbótar á næstunni.

Frumkvöðlar, sem eru að feta sín fyrstu skref, hvort sem þeir eru með mótaða eða ómótaða hugmynd, áhuga eða þekkingu á nýsköpun, geta mætt og tekið þátt í láta hugmyndir verða að veruleika. Sérfræðingar frá Innovit og Landsbankanum munu veita ráðgjöf sem og fjölmargir aðrir. Markmiðið er að strax í byrjun helgarinnar séu myndaðir hópar og hver vinnur með eina hugmynd og þróar hana á það stig að hún verði að raunhæfri viðskiptahugmynd. Í kjölfarið fylgir 48 klukkustunda vinnusmiðja þar sem markmiðið er að koma viðskiptahugmyndinni sem lengst á sem skemmstum tíma. Þátttaka er endurgjaldslaus og við hvetjum alla til að nýta sér þetta tækifæri.

Þátttakendur Atvinnu- og nýsköpunarhelga geta leitað í kjölfarið til Innovit og Nýsköpunarþjónustu Landsbankans til að fá frekari ráðgjöf. Með því vonast Innovit og Landsbankinn til að þær hugmyndir sem fram koma verði að verðmætum fyrirtækjum þegar fram líða stundir.




Skoðun

Sjá meira


×