Skoðun

Að hlaupa af sér hornin

Úrsúla Jünemann skrifar

Þegar ungt fólk safnar saman sinni lífsreynslu og ætlar ekki að láta segjast af eldri og reyndari mönnum þá er gjarnan talað um að „það þurfi að hlaupa af sér hornin" og er þetta hugtak greinilega komið af skepnum sem eru fastar í sínum farvegi og geta ekki lært af öðrum. Í þýskri tungu tala menn um það að borga kennslugjöldin: „Lehrgeld bezahlen", og er átt við þegar menn ana út í vitleysu og hlusta ekki á neinn í kringum sig sem hefur kannski áður fyrr lent í svipuðum vandamálum.

Íslendingum liggur alltaf á, töfralausnir eiga að bjarga öllu. Þolinmæði er ekki okkar sterkasta hlið. Við stökkvum á allt sem heitir skjótur gróði og því miður stökkva oft allir í einu á eitthvað æðislegt og kannski - en bara kannski - arðvænlegt. Sama hvort það hét loðdýrarækt, fiskeldi eða stóriðja.

Á Austurlandi voru menn sem vildu flýta sér hægar og voru ekki á einu máli um ágæti Kárahnjúkaframkvæmda álitnir föðurlandssvikarar. Þeir þorðu ekki að opna munninn. Nú er Fjarðabyggð með skuldsettustu bæjarfélögum landsins. Ekki hefur orðið sú fólksfjölgun sem menn bjuggust við og íbúðarhúsnæði sem var klambrað upp í flýti stendur óselt. Lítil fyrirtæki hafa þurft að leggja upp laupana. Atvinnuskapandi hvað?

Orkumálin hér á landi eru grátlegt dæmi um að menn kunna sér ekki hóf. Það er ekki bara það að við getum ekki lært af öðrum þjóðum. Uppblásið bankakerfi og gríðarleg skuldasöfnun, afsprengi af einhverju versta gullgrafaraæði sem hefur ætt yfir þetta sker hefur leikið okkur grátt.

Siðlausir og illa menntaðir ráðamenn réðu ríkjum. Þjóðin hefur þurft svo sannarlega að borga kennslugjöldin í þeim málum eftir hrunið.

En þótt við getum ekki lært af mistökum annarra þá getum við ekki einu sinni lært af eigin mistökum. Töfralausnagúrúar eru enn vinsælir. Enn eru köllin hávær eftir orkuverum sem munu hrinda okkur í enn meira skuldafen og rústa landinu, enn sjá sumir ekkert atvinnuskapandi nema fleiri álver sem munu fá orku á gjafverði meðan almenningur býr við gríðarlega hækkun á orkuverði. Enn fá menn eins og Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, blússandi vinsældir út af einhverjum verstu loftköstulum sem hafa nokkurn tíma verið búnir til.

Hvenær mun íslenska þjóðin staldra við, hugsa sinn gang og setja sér einhver langtímamarkmið sem ná yfir komandi kynslóðir. Flest okkur eiga jú börn. Við erum væntanlega hugsandi manneskjur sem geta lært af mistökum. Ekki erum við rollur sem hlaupa af sér hornin en haga sér samt alveg eins og alltaf hefur verið.






Skoðun

Sjá meira


×