Handbolti

Rúmensku dómararnir aftur í eldlínunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Rúmenarnir fá að dæma fleiri leiki eins ótrúlegt og það hljómar.
Rúmenarnir fá að dæma fleiri leiki eins ótrúlegt og það hljómar. Mynd/DIENER/Leena Manhart

Rúmenska dómaraparið sem dæmdi leik Íslands og Austurríkis fyrr í vikunni hefur fengið nýtt verkefni á EM í handbolta.

Þeir Sorin-Laurentiu Dinu og Constantin Din voru mikið gagnrýndir af forráðamönnum HSÍ fyrir að stöðva tímann á lokamínútu leiksins gegn Austurríki.

Þá skoraði Austurríki þrjú mörk á síðustu 50 sekúndum leiksins og jafnaði þannig metin gegn Íslandi með ótrúlegum hætti.

Fulltrúar HSÍ funduðu með starfsmönnum leiksins í gær þar sem þeir komu sínum athugasemdum á framfæri. Einnig þeirri skoðun að þeir dómarar sem ekki standa sig vel ættu að snúa heim á leið, rétt eins og þau lið sem ekki ná góðum árangri.

Þeir Din og Dinu munu hins vegar dæma viðureign Þýskalands og Frakklands í Innsbruck í dag en um er að ræða fyrsta leikinn í 2. milliriðli í keppinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×