Erlent

Risa olíuskipi rænt

Óli Tynes skrifar
Sjóræningjar ráðast um borð í skip.
Sjóræningjar ráðast um borð í skip. Úr myndasafni.

Olíuskipið er 300 þúsund lestir að stærð og er með olíufarm að verðmæti 160 milljóna dollara. Tuttugu og fjögurra manna áhöfn er um borð.

Skipið sem er frá Suður-Kóreu sendi frá sér neyðarskeyti þar sem sagt var að vopnaðir sjóræningjar væru komnir um borð. Síðan rofnaði fjarskiptasamband við það.

Það var á leið frá Írak til Bandaríkjanna. Talið er að sjóræningjarnir séu sómalskir og skipið hefur stefnu á Sómalíu.

Þegar tilkynnt var um ránið sendu stjórnvöld í Suður-Kóreu samstundis tundurspilli á vettvang og er hann nú kominn upp að hlið skipsins.

Það er venja sjóræningja að nota áhöfnina sem mannlega skildi til þess að forðast að gerð verði árás.

Ekki er vitað hvernig áhöfn herskipsins bregst við, en þetta er í fyrsta skipti sem herskip frá Suður-Kóreu kemur að skipi sem hefur verið rænt.

Yfirleitt eru skipin látin í friði og svo reynt að semja um lausnargjald. Sómalskir sjóræningjar hafa haft tugmilljónir dollara upp úr ránum sínum undanfarin ár.

Þeir fara yfirleitt þokkalega með fanga sína, enda leggja útgerðirnar megináherslu á það í öllum samningaviðræðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×