Erlent

Hjálp Titanic er að sökkva

Óli Tynes skrifar
Mótorsnekkjan Titanic.
Mótorsnekkjan Titanic.

Alex Evans var úti í búð í Wales þegar vinur hans Mark Corbett hringdi í farsímann hans.

Corbett var dálítið mikið niðri fyrir. Hann sagði Evans að hann væri að sökkva með Titanic á Karíbahafi. Allt rafmagn væri farið af skipinu og talstöðvar því óvirkar.

Eina tækið um borð sem virkaði væri gervihnattasími og símanúmer Evans væri það eina sem hann hefði munað eftir.

Evans rámaði í að það væru nú einhver ár síðan Titanic sökk. Corbett sór hinsvegar og sárt við lagði að hann væri að segja satt.

Evans hripaði þá staðsetningu aftan á kassakvittun og hafði svo samband við bresku strandgæsluna.

Sem hafði samband við þá bandarísku. Tveim tímum síðar fann flugvél frá bandarísku strandgæslunni Mótorsnekkjuna Títanic sem þá maraði í hálfu kafi.

Strandgæsluskip dældi mesta sjónum úr snekkjunni og dró hana svo til hafnar.

Mótorsnekkjan Titanic er fyrrverandi sautjánhundruð tonna togari sem var breytt í skemmtifley fyrir mörgum árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×