Innlent

Beiðnum um vistun fjölgar um fjórðung

Alls fengu barnaverndarnefndir sendar tilkynningar fyrstu þrjá mánuði ársins vegna 1.993 barna, flestar frá lögreglunni. Fréttablaðið/stefán
Alls fengu barnaverndarnefndir sendar tilkynningar fyrstu þrjá mánuði ársins vegna 1.993 barna, flestar frá lögreglunni. Fréttablaðið/stefán

Umsóknum um vistun barna á meðferðarheimili fjölgaði um 26 prósent fyrstu þrjá mánuði ársins 2010 miðað við sama tímabil árið á undan, að því er fram kemur í nýrri samantekt Barnaverndarstofu. „Fyrstu þrjá mánuði ársins 2009 voru 38 umsóknir, en fjölgaði í 48 sama tímabil árið 2010,“ segir þar.

Barnaverndarstofa birti í gær samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarnefnda samkvæmt sískráningu nefndanna fyrstu þrjá mánuði áranna 2009 og 2010. Fram kemur að tilkynningum fjölgaði um þrjú prósent. „Nokkur munur er eftir landsvæðum en tilkynningum fækkaði lítillega á höfuðborgarsvæðinu en fjölgaði á landsbyggðinni um 10 prósent,“ segir í samantektinni, en sem fyrr varða flestar tilkynningarnar svokallaða áhættuhegðun barna, eða 49,2 prósent. „Þá hækkaði hlutfall tilkynninga þar sem um heimilisofbeldi var að ræða frá því að vera 3,7 prósent tilkynninga fyrstu þrjá mánuði ársins 2009 í 5,8 prósent fyrstu þrjá mánuði ársins 2010.“

Þá kemur fram í samantekt Barnaverndarstofu að flestar tilkynningar til barnaverndarnefnda komi frá lögreglu, eða rétt tæpur helmingur. Er það óbreytt milli ára. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×