Erlent

Sjónvarpskona sýknuð af gullfiskadrápi

Óli Tynes skrifar
Liggja óbættir hjá garði.
Liggja óbættir hjá garði.

Fréttakona danska ríkisstjónvarpsins Lisbeth Kölster var í héraðsdómi fundin sek um að hafa brotið dýraverndarlög með tilraun sem hún gerði í fréttaskýringaþætti árið 2004.

Í þættinum var verið að sýna framá að hársjampó geti verið beinlínis hættulegt. Lisbeth hellti örlitlu af vissri tegund af sjampói í fiskabúr með þrettán gullfiskum. Tólf þeirra drápust.

Lisbeth hellti einnig mildari sjampótegundum í tvö önnur gullfiskabúr. Þar lifðu allir fiskarnir af þessa meðferð.

Þátturinn leiddi til heilmikillar umræðu um hvort hársnyrtivörur geti verið hættulegar. En hann vakti einnig til lífsins dýravini sem voru öskureiðir yfir meðferðinni á gullfiskunum.

Í héraðsdómi í maí á síðasta ári var Lisbeth sem fyrr segir fundin sek. Dómurinn taldi hinsvegar að það væri svo langt liðið frá brotinu að ekki væri hægt að refsa henni.

Málinu var svo áfrýjað til Eystri Landsréttar og þar var fjöldamorðkvendið sýknað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×