Handbolti

Snorri: Erum komnir í draumastöðu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Snorri brýst hér í gegnum vörn Rússanna.
Snorri brýst hér í gegnum vörn Rússanna. Mynd/DIENER

Snorri Steinn Guðjónsson átti í dag mjög góðan leik og skoraði sjö mörk úr átta skotum þó svo að hann hafi klikkað einu sinni á vítalínunni.

Snorri átti einnig mjög góðan leik gegn Króatíu í gær og virðist því finna sig mjög vel í Vínarborg.

„Ég er mjög ánægður með það. Riðlakeppnin var upp og ofan hjá mér. Maður getur ekki verið góður í hverjum einasta leik. Liðið er fínt og og við erum líka með góða breidd. Ég hef því ekki miklar áhyggjur af sjálfum mér. Það sem gengur fyrir er að við löndum okkar stigum.“

Ísland er nú komið með sex stig í milliriðlakeppninni og með sigri á Noregi á fimmtudaginn verður liðið öruggt með sæti í undanúrslitum mótsins.

„Þetta verður úrslitaleikur á fimmtudaginn - gegn Norðmönnum. Ef þú hefðir boðið okkur þessa stöðu fyrir mót hefðum við örugglega þegið það. Við erum í raun komnir í draumastöðu.“

„Við þurfum því að byrja undirbúning fyrir næsta leik og byrja að hlaða batteríin að nýju. Við munum svo mæta dýrvitlausir til leiks á fimmtudaginn.“

Hann sagði það ekki hafa verið auðvelt að vinna Rússana í dag.

„Þetta leit kannski auðveldlega út en það vinnur enginn Rússana með vinstri. Við vorum bara vel undirbúnir enda urðum við að vinna þennan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×