Lífið

Hrói höttur spennir bogann

Russell Crowe er hinn nýi Hrói höttur.
Russell Crowe er hinn nýi Hrói höttur.

Hrói höttur er eflaust einhver þekktasta persóna breskrar bókmenntasögu. Þessi góðhjartaði riddari Sherwood-skógar í Nottinghamskíri hefur oft og mörgum sinnum ratað á hvíta tjaldið enda hefur sagan af honum allt það sem prýðir góða kvikmynd: ást, peninga, völd og… boga.

Ridley Scott og Russell Crowe eru á kunnuglegum slóðum í nýjustu kvikmyndinni um Hróa hött. Þar berst Hrói bókstaflega við hlið Ríkharðs Ljónshjarta gegn frönsku innrásarliði.

Þegar Ríkharður deyr og Hrói snýr aftur á heimaslóðir í Nottingham kemst hann að því að hinn illi fógeti kúgar allt sem hann kemst í tæri við. Hróa er slétt sama en þegar hann verður ástfanginn af hinni góðhjörtuðu Marion ákveður hann að leggja henni lið gegn kúgunaröflunum. Auk Crowe fara þau Cate Blanchett og Max von Sydow með stór hlutverk í myndinni sem verður frumsýnd í vikunni.

Hróarnir í gegnum árin
Douglas Fairbanks árið 1922.

Douglas Fairbanks er fyrsti Hrói höttur hvíta tjaldsins en það var árið 1922 sem hann tróð sér í níðþröngar sokkabuxur.

Söguþráðurinn var kunnuglegur: Ríkharður ljónshjarta heldur í þriðju krossferðina til landsins helga og skilur völdin eftir í höndum bróður síns Jóhanns landlausa. Sá er ansi varasamur náungi, byrjar að kúga hina fátæku til að borga undir gjálífi sitt.

Eini maðurinn sem virðist geta staðið upp í hárinu á honum er jarlinn af Huntington, betur þekktur sem Hrói Höttur.

Sean Connery árið 1976.

Sean Connery vakti Hróa upp frá værum blundi árið 1976 þegar hann lék heldri manna útgáfu af konungi þjófanna.

Í Robin og Marion snýr Hrói heim til Sherwood eftir tuttugu ár í krossferðunum og hyggst vinna ástir Marion á ný. Hún er hins vegar orðin nunna.

Erroll Flynn árið 1938.

Árið 1938 réðst Hollywood í gerð nýrrar kvikmyndar um Hróa hött og að þessu sinni var það hjartaknúsarinn Erroll Flynn sem reið um skóglendi Englands.

Almennt er talið að Flynn sé besti Hrói fyrr og síðar en kvikmyndin segir frá því þegar Hrói kemst á snoðir um að hinn illi bróðir Ríkharðs ljónshjarta, Jóhann, ætli að hrifsa til sín völdin.

Kevin Costner árið 1991.

Kevin Costner mætti með bogann til Nottingham í hasarmyndaútgáfu frá árinu 1991.

Í þeirri mynd snýr Hrói líka aftur frá krossferðunum ásamt Azeem og kemst að því að fógetinn frá Nottingham hefur niðurlægt fjölskyldu hans, hrifsað æskuást hans til sín og fer fremur létt með að kúga þá sem minna mega sín.

freyrgigja@frettabladidi.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.