Erlent

NATO viðurkennir dráp á óbreyttum borgurum

MYND/AFP
Talsmenn NATO í Afganistan viðurkenndu í gærkvöldi að fimm óbreyttir borgarar hefðu látist í næturárás á hús í suðausturhluta landsins í febrúar síðastliðinn. Næturárásir af þessu tagi hafa verið harðlega gagnrýndar af heimamönnum í landinu og hefur Hamid Karzai forseti krafist þess að NATO láti af þeim þegar í stað.

Í árásinni sem um ræðir létust fjórar konur sem voru í sama húsi og eftirlýstur Talíbani sem hersveit alþjóðlega herliðsins reyndi að hafa upp á. Tveir karlmenn létust einnig í árásinni en þeir voru vopnaðir og því þrættu talsmenn NATO lengi fyrir að um óbreytta borgara hafi verið að ræða. „Við vitum núna að mennirnir sem voru drepnir voru aðeins að reyna að vernda fjölskyldu sýna," sagði í yfirlýsingu frá NATO.

Þegar fyrstu fregnir bárust af árásinni höfðu talsmenn NATO einnig haldið því fram að konurnar hefðu verið látnar þegar hermennirnir komu í húsið og að þær hefðu verið bundnar og keflaðar. Þetta reyndist líka rakalaus þvættingur. Hermenn sem síðar komu á svæðið höfðu miskilið siði múslíma þegar þeir sáu ættingja kvennanna undirbúa lík þeirra fyrir greftrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×