Handbolti

Guðmundur: Hver leikmaður verður að bæta sig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd/Diener/Leena Manhart

Guðmundur Guðmundsson sagði það algerlega óásættanlegt að íslenska landsliðið hafi fengið á sig sig fimmtán hraðaupphlaupsmörk í leik liðsins gegn Austurríki á fimmtudagskvöldið.

Eins og frægt er orðið náði Austurríki jafntefli í leiknum með því að skora þrjú mörk á síðustu 50 sekúndum leiksins.

En stærsta vandamálið í leiknum var þó varnarleikurinn enda fékk íslenska liðið 37 mörk á sig.

„Við fengum á okkur fimmtán hraðaupphlaupsmörk sem er óásættanlegt. Það er það fyrsta sem við þurfum að laga. Það snýr að því hvernig við skilum okkur til baka og höfum við aldeilis kortlagt það og höfum tekið í gegn á æfingum,“ sagði Guðmundur við Vísi.

Ísland mætir Danmörku í lokaumferð riðlakeppninnar í kvöld og kemst með sigri með þrjú stig og sem sigurvegari riðilsins í milliriðlakeppnina í Vínarborg.

„Við vorum ekki nógu ákveðnir í varnarleiknum í þessum leik og mættum skyttunum ekki nógu framarlega. Þeir voru að komast á flug án þess að við vorum að tækla þá. Það þurfum við að bæta.“

„Ég tel að hver einasti leikmaður í hópnum þurfi að bæta sig um einhver prósent. Það er misjafnt hversu mikið. Það var til dæmis allt of mikið um misskilning á milli leikmanna og það er eitthvað sem við þurfum að bregðast við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×