Innlent

Erlendir blaðamenn furða sig á skeytingarleysi gagnvart lýðræðinu

InDefence hópurinn.
InDefence hópurinn.

Ólafur Elíasson, einn forsvarsmanna InDefense hópsins segist hafa orðið var við það síðustu daga að erlendir fjölmiðlamenn furði sig á því skeytingarleysi sem forystumenn ríkisstjórnarinnar sýni þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fer á morgun. Mikill fjöldi erlendra blaðamanna er nú staddur hér til þess að fylgjast með atkvæðagreiðslunni og segir Ólafur að hann og hans menn hafi farið í yfir 200 viðtöl frá því forseti synjaði lögunum.

Ólafur segir það hafa komið sér nokkuð á óvart hve vel hafi gengið að tala við blaðamennina sem flestir séu mjög vel inn í málunum og sýni málstað Íslendinga mikinn skilning. Hann segist enn ekki hafa hitt þann blaðamann sem finnst ítrustu kröfur Breta og Hollendinga eðlilegar eða sanngjarnar.

Að sögn Ólafs hafa flestir blaðamenn mikinn skilning á því að ákveðin stjórnarkreppa komi upp við aðstæður sem þessar en þeir hrista margir hausinn yfir ummælum um að hunsa kosningar. Margir þessara manna hafi verið við störf víða um heim og oft í löndum þar sem lýðræðið er í skötulíki eða alls ekki fyrir hendi.

Það komi þeim því spánskt fyrir sjónir að sjá stjórnmálaleiðtoga í grónu lýðræðisríki á borð við Ísland gefa lítið fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram fer á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×