Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, kynnir málefnasamning Besta flokksins og Samfylkingarinnar á lokuðum félagsfundi Samfylkingarfélaganna í Reykjavík í kvöld.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í borgarstjórnarkosningunum í lok maí. Í kjölfarið hófu Besti flokkurinn og Samfylkingin viðræður um myndun meirihluta. Samkvæmt samkomulagi flokkanna verður Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur formaður borgarráðs.
Ný borgarstjórn tekur við á morgun og á fundinum verður meðal annars nefndarskipan kynnt. Ekki liggur fyrir hver aðkoma Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna verður að stjórn borgarinnar og hvort Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi borgarstjóri, taki við sem forseti borgarstjórnar.
Á félagsfundinum í kvöld mun Dagur fara yfir niðurstöður viðræðnanna við Besta flokkinn um samstarf um stjórn borgarinnar auk þess sem hann kynnir málefnasamninginn.
