Lífið

Vonbrigðin frá 1986 að baki

Augnlæknirinn, maraþonhlauparinn og ljósmyndarinn á tvö lög í Eurovision-keppninni í ár. Mynd/GVA
Augnlæknirinn, maraþonhlauparinn og ljósmyndarinn á tvö lög í Eurovision-keppninni í ár. Mynd/GVA

„Ég hef alltaf haft virkilega gaman af Eurovision. Þetta er minn fótbolti, má segja," segir augnlæknirinn Jóhannes Kári Kristinsson sem á tvö lög í Eurovision-keppninni í ár.

Fyrra lagið sem verður í fyrstu undankeppninni í Sjónvarpinu í kvöld er ballaðan You Knocked Upon My Door sem er sungin af Sigurjóni Brink. Hið síðara er einnig ballaða og nefnist Þúsund stjörnur, sem Arnar Jónsson flytur.

Þetta er í fyrsta sinn sem Jóhannes Kári á lög í Eurovision og hlakkar hann mikið til að taka þátt. „Ég reyndar sendi inn lag þegar Gleðibankinn sigraði 1986 en það er býsna langt síðan. Þá var ég nítján ára gamall og var hundsvekktur að fá ekki lagið inn. En ég ákvað að taka þátt núna og sé ekki eftir því," segir hann.

„Ég hef alltaf litið á þetta sem góðan vettvang fyrir skúffulagahöfunda sem eru ekki tengdir inn í tónlistarveröldina öllu jafnan."

Draumurinn um þátttöku í Eurovision hefur því loksins ræst hjá Jóhannesi eftir 24 ára bið.

„Eins og margir Íslendingar á þeim tíma hafði ég mjög háar hugmyndir um Ísland og þar á meðal möguleika mína á að taka þátt en þeir gengu ekki alveg þeir draumar. Svo tók læknisfræðin við og þá kannski lagði maður þetta aðeins á hilluna."

Auk þess að semja lög í tómstundum sínum er Jóhannes mikill hlaupagarpur og hefur margoft tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Einnig hefur hann mikinn áhuga á ljósmyndun og er duglegur við að mynda fjölskylduna sína, en hann er kvæntur þriggja barna faðir. Mestur krafturinn fer þó í laser-augnaðgerðirnar sem hann framkvæmir í Glæsibæ.

„Síðasta ár var stærsta árið í okkar sögu. Það voru yfir 1.500 aðgerðir í fyrra og það er mjög spennandi og skemmtilegt að vinna við þetta." - fb










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.