Lífið

Stuðlameistari segir stóran mun á sigri og jafntefli

Hjörvar Hafliðason setti stuðulinn sextán á sigur Hauka gegn KR í Frostaskjólinu. Haukar náðu jafntefli og hefðu getað sigrað. Fréttablaðið/GVA
Hjörvar Hafliðason setti stuðulinn sextán á sigur Hauka gegn KR í Frostaskjólinu. Haukar náðu jafntefli og hefðu getað sigrað. Fréttablaðið/GVA

„Við urðum að loka fyrir að menn gætu lagt undir á sigur Hauka rúmri einni og hálfri klukkustund fyrir leik. Það voru ansi margir sem virtust reiðubúnir til að leggja sitthvað undir á slík úrslit," segir Hjörvar Hafliðason, stuðlameistari hjá Íslenskum getraunum.

Mikla athygli vakti að stuðullinn á sigur Hauka gegn KR í Frostaskjólinu á Lengjunni var sextán, sem þýddi að viðkomandi fengi upphæðina greidda sextánfalt tilbaka ef svo ólíklega vildi til að Haukarnir merðu sigur. Algengur stuðull á útilið er á bilinu 3-5.

Fjölmargir voru spenntir fyrir því að tippa á einhver óvæntustu úrslit íslenskrar knattspyrnusögu en Hjörvar segir stuðulinn enga tilviljun. Svipaður stuðull hafi verið notaður í leik Chelsea og Wigan í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Chelsea vann leikinn 8-0.

Fyrstu sjötíu mínúturnar í Frostaskjólinu bentu til þess að stuðull lengjunnar hefði átt rétt á sér, Vesturbæjarstórveldið lék við hvurn sinn fingur, skoraði tvö mörk og skapaði urmulinn allan af dauðafærum. Allt kom fyrir ekki og Haukarnir náðu að jafna leikinn skömmu fyrir leikslok og voru raunar hársbreidd frá því að stela sigrinum. Stuðullinn á jafntefli var hins vegar „bara" fjórir enda segir Hjörvar stóran mun á sigri og jafntefli og það hafi í raun aldrei farið um hann eftir að Haukarnir jöfnuðu.

Hjörvar segir úrslitin frá því á þriðjudagskvöld ekki breyta því að stuðullinn á Hauka verði sem fyrr mjög hár, í kringum sextán, enda er næsti leikur nýliðanna gegn hinum fornu fjandmönnum þeirra úr Hafnarfirði, sjálfum Íslandsmeisturunum í FH. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.