Skoðun

Persónukjör, jafnrétti og lýðræði

Margrét Cela skrifar

Í niðurstöðum þjóðfundar er að finna sterka kröfu um persónukjör, sem tæki til að auka lýðræði. Sú kosning sem fer fram þann 27. nóvember til stjórnlagaþings gæti orðið merkilegt skref í þá átt.

Umræðan um persónukjör er vel við hæfi og til þess fallin að vekja okkur Íslendinga til umhugsunar um hvernig lýðræðislegast sé að hátta kosningum og vali á þeim fulltrúum sem taka sæti á Alþingi. En þrátt fyrir að traust til flokkana sé í lágmarki og þörfin fyrir breytingar mikil er málið þó ekki svo einfalt og ekkert kerfi er gallalaust. Það þarf því að vega og meta kosti og galla þess kosningakerfis sem verður ofan á útfrá þeim gildum sem þjóðin setur í öndvegi. Finna þarf leiðir sem eru líklegar til að stuðla að réttlátu samfélagi, þar sem þegnarnir búa við jöfn tækifæri og á það við um kosningar líkt og annað.

Persónukjör er að finna víða og til eru margar mismunandi útgáfur af því. Í Finnlandi er boðið uppá að velja einn óraðaðan lista, þ.e. fólk velur lista þess flokks sem því hugnast og raðar upp frambjóðendunum í þeirri röð sem það óskar. Í Svíþjóð er boðið upp á raðaðan lista, þar sem kjósendur geta merkt sérstaklega við þann frambjóðanda sem þeim líst best á. Á Írlandi geta kjósendur forgangsraðað frambjóðendum þvert á flokka, en frambjóðendurnir eru einkenndir með merki síns flokks. Ástralir ganga skrefinu lengra en Írar, með því að skylda kjósendur til að raða öllum frambjóðendunum (ekki aðeins þeim frambjóðendum sem þeir hafa áhuga á).

Einn af kostum persónukjörs er að það erum við sem ákveðum á kjördegi hvaða frambjóðendur njóta brautargengis, ekki flokkarnir.

Stjórnmálamennirnir sækja því umboð sitt á beinni hátt til kjósenda og eru óháðari flokkunum. Á sama tíma skapar þetta ákveðnar hættur sem felast í því að hagsmunaaðilar öðlist auðveldara aðgegni að áhrifamiklum stjórnmálamönnum án milligöngu flokka. Það getur auðveldað þeim að kaupa sér aðstoð þeirra.

Jafnréttismál vega þungt þegar hugað er að persónukjöri. Írska kerfið, sem notast við „single transfareble vote" rétt eins og komandi kosning til stjórnlagaþings, hefur verið gagnrýnt fyrir litla þátttöku kvenna. Hlutfall kvenna á írska þinginu er miklum mun lægra en á Íslandi. Það er einnig umhugsunarvert að eingöngu þriðjungur frambjóðenda til stjórnlagaþings eru konur. Því virðist sem karlar hafi ákveðið forskot á konur í persónukjöri. Hefur það meðal annars verið rakið til þess að þeir séu meira áberandi í fjölmiðlum og algengara að þeir gegni valdastöðum í samfélaginu. Það þýðir að konur þurfa að líkindum að kosta meiru til í kosningabaráttum, þrátt fyrir að vera að jafnaði með lægri laun. Það verður því áhugavert að sjá í kosningunni til stjórnlagaþings, hversu meðvitaðir íslenskir kjósendur verða um að kjósa kynin til jafns og stuðla með því að áframhaldandi og auknu jafnrétti kynjana á þessu sviði. Búast má við að verði skipt yfir í persónukjör muni þörfin á sértækum aðgerðum til að jafna stöðu kynjana í stjórnmálunum aukast.

Fyrirsjáanlegt er því að verði persónukjör ofan á muni eðli kosningabaráttunnar breytast. Einstaklingar munu berjast um hylli kjósenda sín á milli, í stað hinnar hefðbundnu flokkabaráttu sem við þekkjum hér á landi í dag. Persónulegt fylgi einstaklinganna mun því vega þungt og baráttan verður ekki eingöngu á milli fólks úr andstæðum flokkum heldur einnig á milli samflokksmanna. Það hefur einnig sýnt sig að þekktir einstaklingar hafa ákveðið forskot á þá sem óþekktari eru, og búast má við að þeir eigi auðveldara uppdráttar sem hafa meira fé á milli handanna til að eyða í kosningabráttu. Rannsóknir hafa, svo ekki verður um villst, sýnt fram á jákvæða fylgni á milli útgjalda í kosningabaráttu og árangurs í kosningum.

Í ljósi þess vantrausts á stjórnmálakerfið, sem ríkir í samfélaginu hefur þörfin fyrir upplýsta og yfirvegaða umræðu sjaldan verið meiri. Áður en hægt er að taka afstöðu til þess hvort persónukjör sé það sem hentar okkar samfélagi verður að meta kosti þess og galla. Það þarf einnig nauðsynlega að ræða um þær mismunandi útfærslur sem á því er að finna því þar getur himinn og haf skilið á milli. Persónukjör eitt og sér tryggir okkur ekki jafnrétti og lýðræði.

Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 2534 og doktorsnemi í alþjóðasamskiptum.






Skoðun

Sjá meira


×