Lífið

Ömmulegar tískuflíkur

Borghildur Gunnarsdóttir hannar undir nafninu Milla Snorrason. Hönnun hennar hefur vakið mikla athygli tískuspekúlanta. Fréttablaðið/Valli
Borghildur Gunnarsdóttir hannar undir nafninu Milla Snorrason. Hönnun hennar hefur vakið mikla athygli tískuspekúlanta. Fréttablaðið/Valli

Borghildur Gunnarsdóttir hannar flíkur og fylgihluti undir heitinu Milla Snorrason, flíkurnar minna eilítið á litríkan ömmuklæðnað en þó í nýjum og hátískulegri búningi.

Borghildur Gunnarsdóttir útskrifaðist úr fatahönnunardeild Lista-háskóla Íslands í fyrravor og var það útskriftarlína hennar sem vakti sérstaka athygli tískuáhugamanna. „Ég skoðaði mikið gömul sníðablöð frá fimmta áratugnum þegar ég var að hanna útskriftarlínuna og þess vegna virka flíkurnar svolítið ömmulegar. Reyndar hef ég voða gaman af þessum ömmustíl sjálf og fannst allt í lagi að hann fengi að skína í gegn," útskýrir Borghildur. Samhliða útskriftarverkefninu sótti hún námskeið í gerð fylgihluta og ákvað að tvinna því inn í línuna meðal annars í formi hnappa og axlapúða.

Borghildur er einn þeirra unghönnuða sem tekið hafa þátt í PopUp markaðnum sem skotið hefur upp kollinum víða undanfarið ár. Þar hefur hún selt viðarhálsmen sem eru í laginu eins og sjóngleraugu og fallega háa sokka. Aðspurð segist hún ekki hafa fjármagn til að framleiða útskriftarlínuna skemmtilegu að svo stöddu en stefnir á að hanna nýja línu bráðlega sem ódýrari væri að framleiða.

„Ég er í fullri vinnu á daginn og þá getur verið erfitt að finna tíma til þess að setjast niður og hanna heila fatalínu, en ég er alltaf að hanna eitthvað í hausnum á mér," segir hún og hlær. Spurð út í nafnið Milla Snorrason segir hún móðursystur afa síns hafa heitið þessu nafni. „Mér þótti mjög vænt um hana enda var hún mikill töffari. Hún var með fjólublátt hár og fannst ómögulegt að vera ekki með ættarnafn og tók þess vegna upp eftirnafn eiginmanns síns.

Þegar ég var að velja nafn á línuna mína vildi ég nafn sem hefði einhverja merkingu fyrir mig og þess vegna varð þetta nafn fyrir valinu." segir hún að lokum. Hönnun Borghildar má skoða á Facebook síðu Millu Snorrason og þar er einnig hægt að sérpanta háa sokka frá henni.

sara@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.