Skoðun

Rafbílavæðing Íslands

Magnús Jónsson skrifar
Um síðustu helgi varð nokkur umræða um rafbíl borgarstjóra Reykjavíkur og lýsti borgarstjóri því yfir að hann ætlaði í ljósi reynslunnar af rafbílnum sínum að snúa sér að metanbílum. Ekki skal með neinu móti gert lítið úr þeim tækifærum sem felast í nýtingu á metan sem orkugjafa hér á landi.

Hins vegar er ekki ástæða til að fordæma rafbíla almennt á grundvelli reynslu borgarstjóra, þótt þessi „gamaldags" rafbíll hafi ekki staðið sig sem skyldi. Hann var hannaður fyrir meira en áratug og smíðaður fyrir indverskt veðurfar. Eitt fölt laufblað kallar ekki á fordæmingu skógarins.

Enginn vafi er á að rafbílar munu á næstu árum ryðja sér hraðar til rúms en margir gera sér grein fyrir. Fyrir því eru margar ástæður en kannski er sú mikilvægasta að orkunýting rafbíla er 3-4 sinnum meiri en bíla sem ganga fyrir venjulegu jarðefnaeldsneyti. Það sem hefur helst tafið fyrir innrás rafbílanna er þróun rafhlöðunnar. Stutt drægni, skammur endingartími, mikil þyngd og hátt verð hefur með sanni verið sagt um rafhlöðurnar.

En nú er að verða mikil breyting á. Samkvæmt þróunaráætlun sem unnin er af bandaríska orkuráðuneytinu í samstarfi við framleiðendur rafhlaða fyrir bíla er áætlað að innan 5 ára eða svo megi reikna með að drægni á einni hleðslu venjulegs bíls aukist upp í 300-500 km, rafhlöðurnar léttist um 30-50%, ending þeirra muni ná a.m.k. 12-14 árum og verðið lækka þannig að bílarnir verði samkeppnishæfir í verði.

Þegar eru að koma á markað „venjulegir" og rúmgóðir rafbílar og flestir helstu bílaframleiðendur heims stefna að því að hefja framleiðslu á slíkum bílum á næstu 2-5 árum.

Mörg lönd, bæði austan hafs og vestan, í Asíu og Ástralíu hafa mótað sér þá stefnu að hefja rafbílavæðingu á næstu árum. T.d. ákvað Nýja Sjáland árið 2007 að verða forysturíki í rafbílavæðingu í heiminum. Í BNA og víða á meginlandi Evrópu hafa margs konar aðgerðir verið ákveðnar til að liðka fyrir þessari þróun. Má þar bæði nefna breytta skattlagningu og tímabundna fjárstyrki til kaupa á rafbílum eða öðrum vistvænum bílum. Engin þjóð hefur ákjósanlegri stöðu en Ísland til að nýta rafmagn á bílana sína um leið og framboð verður nægjanlegt á slíkum bílum. Hér er nú þegar næg vistvæn raforka fyrir allan bílaflotann og gjaldeyrissparnaður gæti í framtíðinni orðið af svipaðri stærð og þegar þjóðin hætti að mestu að nota olíu til upphitunar húsa. Má nefna í því samhengi að sparnaður við húshitun með rafmagni og hitaveitu var áætlaður 67 milljarðar króna árið 2009.

Mikilvæg forsenda fyrir rafvæðingu í samgöngum er uppbygging innviða til að hlaða rafhlöðurnar. Koma þarf upp hleðslubúnaði sem víðast um landið, bæði heima hjá bílnum og að heiman. Hér á landi er reiknað með að um 80% af hleðslu rafbíla fari fram í heimahöfn bílsins, þ.e. á heimilum eða við fyrirtæki, en önnur hleðsla mun eiga sér stað á sérstökum hleðslupóstum. Síðan verður einnig í boði hraðhleðsla sem staðsett verður t.d. á stöðum hliðstæðum bensínstöðvum. Fyrirtækið EVEN hf. beitir sér nú fyrir að hrinda í framkvæmd sameiginlegu átaki fyrirtækja, ríkisstofnana og sveitarfélaga um að byggja upp slíkt kerfi. Nú þegar hafa allmörg stór fyrirtæki og nokkur sveitarfélög og ríkisstofnanir ákveðið að vera með. Þá hefur umhverfisráðuneytið, fyrst ráðuneyta, ákveðið að taka þátt í átakinu. Er vonast til að ekki færri en 300 aðilar muni á næstu misserum leggja verkefninu lið. Má kynna sér átakið á vefslóðinni www.nle.is.

 




Skoðun

Sjá meira


×